Yfir 4.300 óbreyttir borgarar vegnir og særðir

18.10.2019 - 02:17
epa07919511 Afghan security officials patrol in Enjil district of Herat, Afghanistan, 14 October 2019. The government now controls less than 60 percent of Afghan territory amid gains for the Taliban, who governed the country for several years prior to the US invasion in October 2001.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
4.313 óbreyttir borgarar voru felldir eða særðir í vopnaskaki stríðandi fylkinga í Afganistan frá júlíbyrjun til septemberloka á þessu ári, samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna. Er þetta blóðugasti ársfjórðungurinn síðan Hjálparstarf Sameinuðu þjóðanna í Afganistan tók að halda utan um þessar upplýsingar árið 2009.

Í skýrslunni er blóðbaðið sagt „algjörlega óásættanlegt" og þess krafist að allir deiluaðilar forðist í lengstu lög að láta átök sín og tilræði bitna á saklausum og óvopnuðum borgurum. Fram kemur að þetta sé í fyrsta skipti á þessu ári sem vígasveitir andsnúnar stjórnvöldum hafi vegið og sært fleiri óbreytta borgara en hersveitir Kabúlstjórnarinnar, Bandaríkjamanna og vígasveita sem fylgja þeim að málum.

1.174 drepin, 3.139 særð

Samtals drápu stríðandi fylkingar 1.174 óbreytta borgara og særðu 3.139 frá 1. júlí til 30. september; 42 prósentum fleiri en á sama tíma í fyrra, og raunar fleiri en létust og særðust fyrstu sex mánuði þessa árs. Skýringuna á því má einkum rekja til tíðra og mannskæðra árása talibana á borgaraleg skotmörk í aðdraganda kosninganna í september.

1.768 konur og börn voru á meðal þeirra 4.313 afgönsku borgara sem drepnir voru og særðir á þessum þriðja fjórðungi ársins 2019, eða 41 prósent fórnarlambanna. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi