Yfir 400 sagt skoðun sína á klukku-tillögum

11.01.2019 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Yfir 400 hafa sagt skoðun sína klukku-tillögum Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, en tillögurnar voru birtar á samráðsgátt stjórnvalda fyrir um sólarhring. Katrín sagði í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld að hún vildi fá sem flesta að klukkuborðinu og henni virðist hafa orðið að ósk sinni.

Valkostirnir eru þrír; að klukkan verði óbreytt en með fræðslu verði fólk hvatt að ganga fyrr til náða, klukkunni verði seinkað um 1 klukkustund og  síðasti valkosturinn er að klukkan verði áfram óbreytt en skólar hefji starfsemi seinna á morgnanna. 

Eins og við mátti búast eru skiptar skoðanir. Sumir vilja breyta klukkunni á meðan aðrir telja réttast að klukkan verði látin í friði. „Það er ekki henni að kenna að fólk fer of seint að sofa,“ skrifar einn.

Aðalheiður Jónsdóttir, sálfræðingur, mælir eindregið með óbreyttu ástandi en að einstaklingar, félög, fyrirtæki og stofnanir verði hvött til þess að draga úr virkni seint að kvöldi.  Yngvi Pétursson, fyrrverandi rektor MR, segir það hafa mætt mikilli andstöðu þegar hann gerði könnun meðal nemenda um að hvort skólahald ætti að hefjast seinna. „[Þ]ví þau eru allmörg sem taka þátt í félagsstarfi innan skólans, tómstundastarfi, íþróttastarfi eða listnámi eftir skóla og þessi tilfærsla myndi setja þátttöku í þeim viðburðum í uppnám.“

Heiða María Sigurðardóttir, doktor í sjónrænum taugavísindum, mælir eindregið með að klukkunni verði seinkað í samræmi við sveiflur í magni sólarljóss yfir sólarhringinn.  Íbúi á Neskaupstað leggst aftur á móti alfarið gegn slíkri breytingu og segir hana hafa þau áhrif að sólargangur verði styttri á vökutíma.  Sólarupprás í bænum yrði klukkan þrjú um nóttina en sólin hætti að skína klukkan hálf átta á kvöldin.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í samtali við ruv.is í gær að hún lægi sjálf undir feldi og hefði ekki tekið afstöðu til valkostanna þriggja.  Hún hefði verið íhaldssöm gagnvart breytingum á klukkunni en það hefði breyst eftir að hafa kynnt sér rannsóknir um áhrif birtu og svefns á líðan fólks. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi