Yfir 3.000 faldar grafir fundnar í Mexíkó

31.08.2019 - 08:08
epa07805888 Relatives of missing persons protest during the International Day of the Victims of Enforced Disappearances, in Acapulco, Guerrero, Mexico, 30 August 2019. The relatives of those disappeared in Mexico demanded action from the Mexican government over 40,000 people unaccounted for, 26,000 unidentified bodies in morgues and more than 3,000 clandestine graves.  EPA-EFE/DAVID GUZMAN
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Nærri fimm þúsund lík hafa fundist í yfir þrjú þúsund gröfum víðs vegar um Mexíkó. Líkin eru af fórnarlömbum eiturlyfjastríðsins í landinu. Þetta er fyrsta opinbera talningin á bæði gröfum og fórnarlömbum stríðsins.

Alls eru líkin 4.874. Karla Quintana, stjórnandi opinberrar nefndar sem sér um leit að leyndum gröfum, segir enn eiga eftir að bera kennsl á mörg fórnarlambanna. „Þetta snýst ekki um tölurnar," sagði Quintana á blaðamannafundi í gær. „Þetta snýst um þær þúsundir sem leita skyldmenna sinna, og þær þúsundir sem hafa aldrei snúið heim".

Yfir 200 þúsund hafa látið lífið í stríði mexíkóskra stjórnvalda gegn eiturlyfjagengjum í landinu síðan það hófst árið 2006. Talið er að um 40 þúsund manns sé saknað. Sú tala er reyndar á reiki þar sem stjórnvöld eiga erfitt með að viðurkenna að vandinn sé jafn stórtækur og raun ber vitni.

Eitt kosningaloforða Andres Manuel Lopez Obrador var að koma á fót gagnagrunni yfir fjölda horfinna vegna stríðsins. Eins ætlaði hann að sjá til þess að þeirra sem sé saknað yrði leitað. Að sögn Quintana hafa 522 grafir fundist síðan Lopez Obrador tók við völdum í desember. Alls eru 3.025 skráðar grafir í gagnagrunninum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi