Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir 30 þorpsbúar myrtir í Malí

15.02.2020 - 06:07
Mynd með færslu
Flóttafólkið í Tassalit-búðunum kemur frá eyðimerkurhéruðum í norðurhluta Malí. Þar hefur verið róstusamt undanfarin misseri Mynd: EPA
Yfir fjörutíu eru látnir, þar af níu hermenn, eftir átök þjóðflokka í miðju Malí. 31 var drepinn í árás á þorpið Ogossagou, sem er að mestu byggt af Fulani þjóðinni. 160 létu lífið í sama þorpi í árás vígamanna Dogon þjóðarinnar í mars í fyrra.

AFP fréttstofan hefur eftir þorpshöfðingjanum Aly Ousmane Barry að um 30 vopnaðir menn hafi gert árásina í gær. Kveikt var í kofum og uppskeru þorpsins, auk þess sem búfé var brennt eða tekið. 

AFP hefur eftir öðrum embættismanni í þorpinu að auk þeirra sem létu lífið væri hátt í 30 saknað. Hann sakaði Dogon þjóðina um ódæðið, en það hefur ekki fengist staðfest. Bæði embættismaðurinn og Barry segja árásina hafa verið gerða nokkrum klukkustundum eftir að hermenn úr stjórnarher Malí fóru frá þorpinu. Síðar í gær voru svo átta hermenn drepnir og fjórir særðir í umsátri í Gao héraði. Auk þess var einn hermaður drepinn í árás á bækistöð hersins í Mondoro, sem einnig er í miðju Malí. 

Langvarandi átök 

Núverandi átök Fulani og Dogon þjóðanna má rekja til uppgangs íslamista í norðurhluta Malí árið 2012. Þeir hafa gert mikinn usla í Malí, og nágrannaríkjunum Níger og Búrkína Fasó, þar sem þúsundir hafa fallið fyrir hendi þeirra. Erjur Fulani og Dogon byrjuðu eftir að Fulani þjóðin slóst í lið með vígamönnum íslamista. Fulani þjóðin hefur verið sökuð um ofbeldi gagnvart öðrum þjóðum í nágrenninu. Dogon og fleiri þjóðir settu þá saman sjálfsvarnarhópa, sem hafa verið sakaðir um fjöldamorð í hefndarskyni.

Auk árásarinnar á Ogossagou í gær voru 14 úr Fulani þjóðinni myrt í janúar. Í júní í fyrra voru gerðar árásir á þorpin Sobane Da, Gangafani og Yoro þar sem um 75 Dogonar voru drepnir. Fulani vígamenn eru grunaðir um árásina.