
Yfir 30 almennir borgarar féllu í Jemen
Í yfirlýsingu frá skrifstofu mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Jemen segir að samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum hafi 31 almennur borgari látið lífið og 12 særst í árásum á Al Hayjah. Lise Grande, yfirmaður mannúðaraðstoðar SÞ, segir árásirnar hryllilegar og samkvæmt alþjóðalögum skuldbindi ríki sig til þess að vernda almenna borgara frá hernaðaraðgerðum.
Leitar- og björgunaraðgerð segja Sádar
Hernaðarbandalag Sáda, sem styður aðgerðir stjórnarhersins í Jemen gegn uppreisnarmönnum, gekkst við því að mögulega hafi almennir borgarar fallið. Í yfirlýsingu kallaði bandalagið loftárásirnar leitar- og björgunaraðgerð á svæðinu sem herflugvél þeirra hrapaði.
Sádar veittu stjórnarher Jemens hjálparhönd árið 2015. Síðan hafa tugþúsundir almennra borgara fallið í átökum, og mannúðarástandið í landinu er það versta í heiminum að sögn Sameinuðu þjóðanna. Hernaðarbandalag Sáda, sem samanstendur af nokkrum ríkjum í Miðausturlöndum, hefur verið gagnrýnt fyrir mikið mannfall almennra borgara í átökunum. Nokkur vestræn ríki hafa ákveðið að draga úr vopnasölu til ríkjanna í hernaðarbandalaginu. Sádi Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa keypt vopn frá Bandaríkjunum, Frakklandi og Bretlandi að verðmæti margra milljarða dollara.