Yfir 2.100 ræður og andsvör Miðflokks á viku

28.05.2019 - 10:27
Mynd með færslu
 Mynd: Miðflokkurinn
Þingmenn Miðflokksins hafa talað um þriðja orkupakkann sín á milli í ræðustól Alþingis í yfir 90 klukkustundir. Þorsteinn Sæmundsson hefur stigið oftast í ræðustól, Anna Kolbrún Árnadóttir sjaldnast í nýliðinni viku. Ræður og andsvör í málþófinu innan flokksins eru nærri 2.200 talsins í síðari viku umræðunnar.

Samantekt á ræðum, andsvörum og tölum Miðflokksmanna um fundarstjórn forseta á tímabilinu 20. til 28. maí á vef Alþingis sýnir að þingmennirnir níu hafa samanlagt stigið í ræðustól rúmlega 2150 sinnum til að ræða þriðja orkupakkann á einni viku. Langoftast eru þingmennirnir þeir einu sem ræða málin sín á milli, með örfáum undantekningum. Síðari umræða um þriðja orkupakkann hófst 14. maí, en eftirfarandi samantekt snýr að síðari viku umræðunnar.

Þorsteinn hefur talað oftast, Anna Kolbrún sjaldnast

 1. Þorsteinn Sæmundsson hefur stigið oftast í ræðustól til að ræða þriðja orkupakkann af öllum þingmönnum, með rúmlega 355 ræður og andsvör. Hann talaði alla dagana, 20. til 28. maí.
    
 2. Næstur kemur varaþingmaðurinn Jón Þór Þorvaldsson. Hann steig rúmlega 340 sinnum í ræðustól á fimm dögum, frá 20. til 25 maí. 
   
 3. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, talaði alla dagana og er í þriðja sæti, en þó naumlega. Hann átti tæplega 340 ræður og andsvör um þriðja orkupakkann.
   
 4. Birgir Þórarinsson talaði líka alla dagana, tæplega 290 sinnum. Hann er í fimmta sæti. 
   
 5. Næstur kemur þingflokksformaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson. Hann steig um 190 sinnum í ræðustól með ræður og andsvör, alla dagana 20. tiil 28. maí. 
   
 6. Ólafur Ísleifsson átti ræður og andsvör frá 20. til 27. maí. Þær voru tæplega 180 talsins.
   
 7. Karl Gauti Hjaltason talaði dagana 21. til 28. maí, tæplega 170 sinnum. 
   
 8. Anna Kolbrún Árnadóttir hefur talað sjaldnast, í rúmlega 70 skipti. Hún varði tveimur dögum í umræðurnar, frá 20. til 22. maí. 

Sigurður Páll með sína fyrstu orkupakkaræðu í dag

Sigurður Páll Jónsson hefur ekkert tekið þátt í málþófi samflokksmanna sinna um þriðja orkupakkann, enda hefur hann verið í leyfi frá þingstörfum þar til í dag. Sigurður Páll ætlar að eiga sína fyrstu ræðu um málið á Alþingi í dag, þegar annarri umræðu um þriðja orkupakkann verður fram haldið.  

„Með sorg í hjarta”

Bryndís Haraldsdóttir, varaforseti Alþingis, frestaði umræðum klukkan 5:50 í morgun. Málþófið hafði þá staðið síðan um klukkan 16 í gær. Bryndís bauð þingmönnum Miðflokksins að veita enn frekari andsvör þegar Bergþór Ólason lauk 125. tölu sinni í ræðustól í tengslum við síðari umræðu um þriðja orkupakkann, sem þeir afþökkuðu. 

„Ef svo er ekki verður forseti nú, með sorg í hjarta, að fresta umræðu um annað dagskrármálið,” sagði Bryndís, sem hefur áður í ræðstól Alþingis verið harðorð í garð þingmanna Miðflokksins sem hún segir hafa hertekið ræðustörfin með málþófi sínu. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi