Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Yfir 20.000 heimilislaus vegna flóða í Paragvæ

25.01.2018 - 05:32
epa06465824 A group of people walk in a flooded street in Asuncion, Paraguay, 22 January 2018. The residents of Banados de Asuncion, neighbourhoods at the bank of the Paraguay river, are evacuating to higher areas of the city after a week of floodings.
Hér standa húsin enn. Ástandið er ekki alstaðar svo gott við bakka Paragvæ-fljóts. Mynd: EPA
Minnst 20.000 íbúar Ascuncion, höfuðborgar Paragvæs, hafa misst heimili sín í flóðum síðustu daga. Borgaryfirvöld hafa lýst yfir neyðarástandi í borginni næsta mánuðinn. Úrhellisrigning undanfarna sólarhringa olli skjótum og miklum vexti í Paragvæ-fljóti, sem hlykkjast í gegnum höfuðborgina. Svo miklir eru vatnavextirnir að fljótið flæddi yfir bakka sína og hreif með sér fjölda kofahreysa og kumbalda í fátækrahverfum sem þar standa.

Um hálf milljón manna býr í höfuðborginni og tvær milljónir á höfuðborgarsvæðinu öllu. Talsmaður borgarstjórnar segir að unnið sé að því að koma mat og hreinu vatni til þeirra sem verst urðu úti í flóðunum.

Mörg þeirra sem misstu heimili sín hafa fengið tímabundið húsaskjól í efri byggðum höfuðborgarinnar. Fjöldi fólks hírist hins vegar í heimatilbúnum tjöldum og tildrum sem hróflað hefur verið upp á torgum og grasbölum og hvar sem auðan blett er að finna.

Afar óvenjulegt er að svo mikið vatnsveður sé á þessum slóðum á þessum árstíma, en veðurfræðingar spá áframhaldandi hellirigningu. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV