Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfir 200 uppsagnir á sólarhring

26.09.2019 - 15:56
Mynd með færslu
 Mynd: Brodie Vissers - burst.shopify.com
Alls hefur 219 manns verið sagt upp hjá stórfyrirtækjum í landinu síðasta sólarhring. Mestu munar þar um 100 starfsmenn Arion banka sem sagt var upp í morgun og 87 flugmenn Icelandair sem sagt var upp störfum í gær.

Hundrað starfsmönnum var sagt upp hjá Arion banka í morgun. Fram kom í hádegisfréttum að uppsagnirnar í morgun séu liður í breytingum á uppbyggingu bankans. Fjórir af hverjum fimm sem missa vinnuna starfa í höfuðstöðvum bankans en einn af hverjum fimm í útibúum hans.  Sviðum bankans verði fækkað um tvö og verkefni færast til innan bankans. Með þessu vill stjórn bankans auka arðsemi og koma kostnaði undir 50 prósent af tekjum. Stefna bankans hefur verið sú að arðsemi eigin fjár sé umfram tíu prósent en það hefur ekki náðst undanfarið. Friðbert Traustason, formaður og framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, sagði í hádegisfréttum að margir þeirra sem sagt var upp hjá Arion banka í morgun hefðu unnið í bankanum og forverum hans í áratugi. „Þannig að þetta er svartur dagur.“

Fljótlega eftir að fréttir bárust af uppsögnum í Arion banka bárust fregnir af því að 20 starfsmönnum hefði verið sagt upp í Íslandsbanka. Ástæða uppsagnanna er sögð vera almennar hagræðingaaðgerðir. Fyrr í mánuðinum sagði bankinn upp sex starfsmönnum. Edda Hermannsdóttir, upplýsingafulltrúi bankans, segir að fólkið hafi starfað á ólíkum stöðum í bankanum en að meirihluti uppsagnanna hafi verið í höfuðstöðvum.

Eftir hádegi greindi Vísir frá því að tólf hefði verið sagt upp hjá kreditkortafyrirtækinu Valitor, sem er dótturfélag Arion banka.  Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor staðfestir þetta í samtali við Vísi. Haft er eftir honum að grípa hafi þurfti til uppsagnanna vegna breytinga í samkeppnisumhverfi og viðvarandi tapreksturs. Þá séu miklar breytingar á samkeppnisumhverfi kortafyrirtækja, rétt eins og banka. Uppsagnirnar eru fyrir utan þá sem sagt var upp hjá Arion. Ekki náðist í Viðar við gerð fréttarinnar.  Yfir 400 manns starfa hjá Valitor á starfsstöðvum fyrirtækisins á Íslandi, Bretlandi og í Danmörku. 

Fram kom í fréttum í gær að Icelandair hefði ákveðið að hætta við að færa hóp flugmanna félagsins niður í hálft starf og segja í staðinn upp 87 flugmönnum. Uppsögnin tekur gildi 1. október og vonast félagið til þess að geta boðið flestum þeirra starf aftur næsta vor. Hjá félaginu starfa áfram um 460 flugmenn og flugstjórar. 

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var í dag tilkynnt um breytingar á skipulagi á þremur sviðum, sem taka gildi í dag. Tvö störf eru lögð niður í hagræðingarskyni með breytingunum, sem ætlað er meðal annars að skerpa á verkaskiptingum. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV