Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfir 19.000 manns í yfirfullum flóttamannabúðum

23.01.2020 - 15:29
Börn að leik í Moria-búðunum fyrr í þessum mánuði. - Mynd: EPA / EPA
Yfir fjögur þúsund mótmælendur komu saman á grísku eyjunum Lesbos, Samos og Chios í gær og mótmæltu aðbúnaði flóttafólks á eyjunum. Moria-flóttamannabúðirnar á Lesbos eru ætlaðar fyrir þrjú þúsund manns en þar dvelja yfir nítján þúsund.

Mótmælendurnir héldu á lofti borða sem á stendur „Við viljum eyjurnar okkar aftur“. Á öðrum borða er þess óskað að ekki verði komið upp fleiri fangelsum. Breska ríkisútvarpið hefur eftir barþjóni sem býr á Lesbos að flóttafólkinu sé höldnu föngnu og fái ekki að fara þangað sem það vilji. Lesbos er í raun nær Tyrklandi en Grikklandi og margir á flótta, til dæmis frá Sýrlandi, sem koma þar við á flótta sínum til annarra Evrópuríkja. 

epa08150909 People protest against the creation of new structures on the islands and demanding a solution for migrants and refugees asking for asylum, the control of non governmental organisations operating on the island, border guard and support for local communities and health and safety structures, Lesvos island, Greece, 22 January 2020. A general strike has been called on the islands of the north Aegean affected by the refugee crisis.  EPA-EFE/DIMITRIS TOSIDIS
Frá mótmælunum á Lesbos í gær. Íbúar vilja bættan aðbúnað fyrir flóttafólk. Mynd: EPA

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, hefur frá áramótum unnið sjálfboðastörf á Lesbos fyrir hjálparsamtökin Shower Power. Hún segir það hafa verið mjög dýrmæta reynslu að kynnast þeim mjög svo erfiðu aðstæðum sem fólkið lifir við. Hjálparsamtökin hafa afmarkað verkefni, að reka lítið hús með þremur sturtum. Þangað geta um 25 konur og börn komið dag hvern og fengið að stoppa við í tvo til þrjá tíma. Fólkið getur farið í sturtu og fengið að borða. Það fær föt og skó og getur slakað á part úr degi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Þrjár sturtur geta skipt gríðarlega miklu máli fyrir þá sem þangað koma. Að vera í námunda við þessa búðir minnir mann á hversu lítið maður getur gert þannig að það var mikilvægt að stilla sig inn á það að það skipti víst máli fyrir þær sem stóðu undir sturtunni að fá að koma,“ sagði Sigþrúður í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 í dag. 

Konurnar fengu einnig afhent ný nærföt og segir Sigþrúður að það hafi vakið athygli starfsfólks að þær sóttust eftir því að vera í samstæðum brjóstahaldara og nærbuxum og völdu vel þau föt sem þær tóku. Sjálfri fannst henni það jákvætt að finna að konurnar gerðu kröfur, þrátt fyrir að hver dagur sé mikil barátta. Hún gat ekki spjallað við allar konurnar enda talar hún hvorki persnesku né arabísku en nokkrar kvennanna tala ensku. Hún kveðst hafa fundið í samskiptunum að konunum fannst gott að fá jákvæða athygli og hlýju, það sé eitthvað sem fólk í flóttamannabúðum fái oft ekki mikið af. 

epa05708048 Refugees walk in the snow at the Moria refugees camp on Lesvos Island, Greece, 09 January 2017. A cold wave across Greece causing temperatures to drop drastically brought snowfall to many cities.  EPA/STRATIS BALASKAS
 Mynd: EPA

Það eru sturtur í flóttamannabúðunum en konunum finnst mörgum hverjum erfitt að nota þær og því er vinsælt hjá mörgum þeirra að koma með börnin í húsið sem hjálparsamtökin reka. Konurnar gátu ekki alltaf læst að sér í almenningssturtum og salernum og óttuðust að verða fyrir áreitni. Í búðunum er einnig mjög kalt, matar- og rafmagnsskortur.

Um 80.000 manns búa á eyjunni og segir Sigþrúður að margir þeirra taki virkan þátt í hjálparstarfi. „Það er ótrúlega margt fallegt sem spratt frá íbúunum sjálfum.“ Hún nefnir sem dæmi hjón sem ráku veitingastað en ákváðu að breyta honum í hjálparsamtök og veita fólki vinnu og mat að launum og sömuleiðis senda þau mat dag hvern til fólks með fatlanir og til barnshafandi kvenna.