Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Yfir 1100 km af skurðum grafnir frá 2008

11.06.2019 - 09:51
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Landbúnaðarháskólinn metur nú hve mikið framræst land hefur bæst við með skurðgrefti á Íslandi síðustu tíu árin. Nýtt kort leiðir í ljós að bændur hafa grafið yfir 1100 kílómetra af skurðum frá 2008. Samkvæmt núgildandi mati hafa 3400 ferkílómetrar af votlendi hafi verið ræstir fram og er losun gróðurhúsalofttegunda úr þurrkuðum mýrum um 2/3 af heildarlosun Íslendinga sem talin er fram til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Í mýrum og votlendi safnast mikið kolefni í formi mós sem er gamlar plöntuleifar. Þegar votlendið er ræst fram með skurðum byrjar rotnun sem losar gróðurhúsalofttegundir. Áðurnefnt umfang 2/3 af heildarlosun hefur verið dregið í efa og því haldið fram að stærð á framræstu landi hafi verið ofmetin. Þá sé óvíst sé hve mikið hver hektari losi á Íslandi og hve lengi. Landbúnaðarháskóli Íslands hefur kortlagt skurði á Íslandi og búið til svokallaða skurðaþekju til að meta stærð á framræstu landi og losun frá ólíkum landgerðum. Jón Guðmundsson lektor segir efasemdir um stærð á framræstu landi byggðar á misskilningi. Ólíkt því sem haldið hefur verið fram sé búið að leiðrétta tölur þar sem áhrifasvæði tveggja skurða skarast. Einnig er rýnt í landslagið og í sumum tilvikum er áhrifasvæði skurða stækkað til dæmis þar sem skurðir umkringja land.

Jón segir að í núgildandi mati sé gert ráð fyrir að um 3400 ferkílómetrar hafi verið ræstir fram á Íslandi. Hver hektari hefur verið talinn losa að meðaltali um 25 tonn á ári samkvæmt rannsóknum íslenskra vísindamanna, sem eru í takt við leiðbeiningar vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Flókið er að reikna heildarlosun frá framræstu landi miðað við fjölda hektara þar sem losunarstuðull er mismunandi eftir landgerðum. Skurðaþekjan sem nú er unnið að byggist á betri gögnum en áður og meðal annars góðum loftmyndum. Unnið er að því að uppfæra hana og gæti áætlað framræst land átt eftir að stækka enda er í núgildandi mati miðað við skurðahnitun frá 2008. Síðan þá hafa rúmlega 1100 kílómetrar af skurðum bæst við og eftir er að taka saman viðbætur á Vestur- og Norðvesturlandi. Nýir skurðir hafa þó ekki alltaf í för með sér stækkun framræstra svæða heldur eru bændur að þétta skurðanet til að vinna ný tún. Landbúnaðarháskólinn metur nú hve mikið af þessum skurðum er raunveruleg viðbót.

Áætlað er að með endurheimt votlendis megi minnka losun á hektara um 20 tonn en ýmsum spurningum er enn ósvarað um losun frá framræstu landi. Landbúnaðarháskólinn og Landgræðslan vinna að frekari rannsóknum, bæði með gasmælingum og jarðvegssýnum.