Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfir 1.000 laxar í fjórum ám

26.08.2019 - 08:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Jónsson - RÚV
Fjórar ár eru nú komnar yfir 1.000 laxa mörkin í sumar samkvæmt nýjustu tölum Landssambands veiðifélaga. Heildarfjöldi veiddra laxa í flestum ám er enn langt undir lokatölum í fyrra.

Í lok júlí var Eystri-Rangá fyrsta áin í sumar sem fór yfir 1.000 veidda laxa. Hún er nú komin í 2.556 laxa og er aflahæst það sem af er sumri. Selá í Vopnafirði er næst aflahæsta áin með 1.167 laxa. Þar á eftir er Ytri-Rangá og Hólsá, vesturbakki, með 1.106 laxa. Lokatala fyrir Ytri-Rangá síðasta sumar fór yfir 4.000. Miðfjarðará er sú fjórða með 1.091. 

Laxveiði hefur almennt verið léleg í íslenskum ám í sumar og aðstæður til að veiða sums staðar mjög erfiðar. Miklir þurrkar hafa verið í sumar sem hafa valdið því að margar ár eru vatnslitlar. Um miðjan júní sendi Hafrannsóknarsofnun frá sér áskorun til veiðifélaga og strandveiðimanna að gæta hófsemi í laxveiði í sumar og sleppa veiddum löxum. Það væri nauðsynlegt til að hrygningarstofninn í haust gæti stækkað.