Yfir 1.000 manns hafa nú dáið af völdum ebólusýkingar í faraldri sem hefur geisað í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó síðan í ágúst í fyrra. Heilbrigðisyfirvöld í Kinshasa tilkynntu þetta í gær. Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins segir að borist hafi fregnir af 14 dauðsföllum af völdum ebólu á síðustu dögum og þar með sé staðfestur fjöldi látinna orðinn 1.008. Yfir 1.450 smit hafa verið staðfest, þar af 126 í síðustu viku.