Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfir 1.000 drukknað á Miðjarðarhafi í ár

epa07886405 Migrants from Afghanistan arrive on a dinghy on the coast of Skala Sikamias, on the island of Lesvos, Greece, 01 October 2019.  EPA-EFE/STRATIS BALASKAS
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Um eða yfir 1.000 manns hafa látið lífið á leið sinni til Evrópu yfir Miðjarðarhafið það sem af er þessu ári og hátt í 600 á flóttanum frá Mið- og Suður-Ameríku norður á bóginn. Þetta er sjötta árið í röð, sem fleiri en 1.000 manneskjur farast á þessari leið, samkvæmt tölum frá Alþjóða fólksflutningastofnuninni, undirstofnun Sameinuðu þjóðanna sem starfar náið með Flóttamannahjálp samtakanna.

Staðfest dauðsföll voru orðin 994 í gær, mánudaginn 1. október. Inni í þeirri tölu eru ekki þau sem talin eru hafa verið um borð í bát sem fórst milli Marokkó og Spánar um næstliðna helgi, en óttast er að allt að 40 hafi farist í því slysi.

Þrjár leiðir helst farnar

Þeir sem smygla þessu fólki til Evrópu fara einkum þrjár leiðir. Leiðin frá Líbíu (og einhverju leyti Alsír og Túnis) til Ítalíu og Möltu hefur kostað 659 mannslíf á þessu ári. 66 hafa farist á hafsvæðinu milli Sýrlands og austurhluta Tyrklands annars vegar og Grikklands og Kýpur hins vegar, og 269 á hafinu milli Marokkó og Spánar.

Sem fyrr segir er þetta sjötta árið í röð sem fleiri en 1.000 karlar, konur og börn drukkna á Miðjarðarhafinu og árið í ár er langt í frá það versta. Þvert á móti voru fimm undanfarin ár öll mun mannskæðari og samtals hafa minnst 15.000 manns á flótta undan örbirgð og ofbeldi týnt lífinu á leiðinni yfir Miðjarðarhafið á þessu sex ára tímabili.

Þrjú af þessum fimm árum (2015, 2016 og 2017) voru dauðsföllin orðin fleiri en eitt þúsund um miðjan apríl, 2018 gerðist það í júní en þúsundasta, staðfesta drukknunin árið 2014 var í júlí.

596 hafa dáið á leið til Bandaríkjanna

Í gær, 1. október, hafði Alþjóða fólksflutningastofnunin staðfestar fregnir af 596 dauðsföllum meðal fólks á leið frá Mið- og Suður-Ameríku norður í álfu, og hafa þau aldrei verið svo mörg á þessum tíma árs frá því stofnunin byrjaði að fylgjast með þessum þjóðflutningum árið 2014. 

Þrjú þessara ára; 2014, 2015 og 2018 dóu færri en 600 á þessari leið allt árið. 2016 fórust alls 729 á þessari flóttaleið, en 600. dauðsfallið var ekki staðfest fyrr en 24. október. Og 2017, þegar 680 létu lífið á leiðinni til fyrirheitna landsins í norðri dó sá 600. úr þeirra hópi hinn 19. desember. 
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV