Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Yfir 100 svöruðu vændisauglýsingu

02.09.2011 - 20:19
Yfir eitthundrað karlmenn svöruðu tálbeitu auglýsingu Kastljóss um vændi á fyrstu þremur klukkustundunum sem auglýsingin var á vefsíðunni Einkamál. Fjöldinn hafði tvöfaldast áður en sólarhringur var liðinn. Kastljós sendi svarbréf fyrir hönd konunnar, þar sem hún greindi frá verðinu og spurði hvort mennirnir væru giftir.

Fæstir vildu greina frá hjúskaparstöðu sinni en þó viðurkenndu tuttugu að þeir væru kvæntir og sjö sögðust vera í sambúð.

Fæstir sem svöruðu sögðust hafa áhuga á hefðbundnu kynlífi og einn þeirra, sem kallar sig Master, virðist fullur kvenfyrirlitningar, sé miðað við bréfið sem hann sendi, sem var svohljóðandi: 

„Master notar þig að vild. Þú ert hlutur sem hann notar aftur og aftur. Þú þekkir þína stöðu gagnvart honum. Veist hvað þú ert og til hvers þú ert. Viltu spjalla? Kveðja Master“   

Í Kastljósi í kvöld var rætt við tvær konur sem stundað hafa vændi hér á landi. Stígamót opnuðu í dag nýtt kvennaathvarf fyrir fórnarlömb vændis og mansals. Um 30 konur leita árlega til Stígamóta vegna vændis.