Yfir 100% munur á heildarkostnaði neytendalána

04.04.2018 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com/patrickgage
Yfir 100% munur getur verið á heildarkostnaði milli lánveitanda á neytendalánum. Þetta kemur fram á nýrri reiknivél Aurbjörg.is. Annar stofnanda Aurbjargar telur að hinn almenni Íslendingur átti sig ekki á heildarkostnaði neytendalána.

Á Aurbjörg.is er hægt að sjá samanburð á öllum helstu fjármálaþjónustum; mun á ýmisskonar lánum milli lánveitenda ásamt grundvallar upplýsingum er snúa að lánum og lántöku. Í dag birtu þau lánareiknivél á síðunni sem sýnir samanburð á heildarkostnaði neytendalána.

105% munur milli lánveitanda

Ólafur Örn Guðmundsson, verkfræðinemi og annar stofnandi Aurbjargar segir að heildarkostnaður skammtíma- eða neytendalána geti numið allt að 105 prósentum milli lánveitanda. Markmiðið með síðunni er að auka fjármálagagnsæi og aðstoða neytendur við ákvarðanir tengdar fjármálum. 

„Við ákváðum að bæta þessum samanburði við hjá okkur út að auknum vinsældum á þeim. Hinn almenni íslendingur áttar sig ekki á heildarkostnaði lánsins. Það eru ekki bara vextirnir sem skipta máli. Það eru öll gjöldin. Það eru lántökugjöld, greiðslugjöld og svo framveigis,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu.

Lánshæfismat skiptir miklu máli

Hann segir að fjármálalæsi Íslendinga sé ábótavant. „Ég held að þetta eru flókin oft hugtök, fjármálalæsi íslendinga er ekki það allra besta. Árleg hlutfallstala kostnaðar, þetta orð, oft hræðir fólk. Aukinn skilningur á fjármálalæsi, á hvað fólk á að horfa, skiptir miklu máli. Fjármálalæsi er eitthvað sem má bæta, þess vegna erum við að bæta við þessum upplýsingum um hvað árleg hlutfallstala kostnaðar þýðir og sýnum þessa tölu skýrt fram í samanburðinum.“

Ólafur segir jafnframt að á heimasíðu flestra lánveitanda sé aðeins hægt að sjá heildarkostnað lántökunnar fyrir besta mögulega lánshæfismat hvers einstaklings en margir átti sig ekki á því að lánskjör fari yfirleitt eftir hvernig fólk komi út úr lánshæfismati.

Erfitt getur verið að bera húsnæðislán og skammtímalán saman en Ólafur segir að það sé áhugavert að sjá mun á lánskjörum lánveitenda. „Það sem við sjáum þarna sem er mjög merkilegt að í húsnæðislánum þá er ekkert gríðarlega mikill munur á lánskjörum milli lánveitanda, þarna í skammtímalánum þá er alltaf mjög mikill munur á milli lánveitanda.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi