Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

WOW Air átti frumkvæði að sameiningarviðræðum

06.11.2018 - 17:49
Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að WOW Air hafi átt frumkvæði að viðræðum um sameiningu flugfélaganna. Viðræðurnar hafi byrjað á föstudagskvöld og klárast um hádegið í gær. „Við fórum yfir ýmsar tölur um helgina í rekstri félagsins og þess háttar og komumst að ákveðinni niðurstöðu,“ segir Bogi og segist aðspurður ekki telja að WOW Air hafi verið á leiðinni í þrot.

Bogi segir að gangi samruninn eftir séu ekki uppi áform um annað en að félögin verði áfram rekin hvort í sínu lagi. „Það liggur ekki fyrir, ef þetta gengur eftir, neinar fyrirætlanir um neitt annað en að hafa fyrirtæki í sitthvoru lagi.“

Bogi telur að samruninn eigi ekki eftir að hafa áhrif á flugfargjöld. Áfram verði mikil samkeppni við stór erlend flugfélög, tæplega 30 erlend flugfélög fljúgi til og frá landinu.

„Samruninn sjálfur mun ekki hafa áhrif á verð eða neitt þess háttar. Það er annað í umhverfinu sem ræður því, kostnaðarhækkanir, samkeppni við önnur flugfélög og þess háttar.“ 

Nú hafið þið sjálfir talað um það undanfarna mánuði að það væri nauðsynlegt fyrir ykkar rekstur að fargjöld hækki. Heldurðu að þetta leiði ekki til þess og bæti þar af leiðandi rekstur ykkar? „Ekki þessi samruni, nei. Við höfum sagt það áður að flugfargjöld hafa verið of lág og flugfélög eru að selja sæti sem þau eru að framleiða undir kostnaðarverði. Það er bara ekki sjálfbært til lengri tíma. Þannig að samruninn mun ekki hafa áhrif á verð heldur eitthvað annað, í rauninni bara sjálfbær rekstur og umhverfið okkar.“ 

Hægt er að horfa á allt viðtal Sigríðar Daggar Auðunsdóttur fréttamanns við Boga Nils Bogason í spilaranum hér fyrir ofan. 

Mynd: RÚV - Kastljós / RÚV
Sigríður Hagalín Björnsdóttir ræddi við Boga í Kastljósi í kvöld. Hér má horfa á allt viðtalið.