Sophie Wilmes verður fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra í Belgíu. Hún tekur við af núverandi forsætisráðherra, Charles Michel, sem verður formaður leiðtogaráðs Evrópusambandsins 1. desember.
Michel greindi frá því í gær að hann ætli að víkja úr embætti forsætisráðherra í síðasta lagi í byrjun næsta mánaðar. Wilmes verður svarin í embætti af Filippusi konungi á næstu dögum.
Michel hefur leitt starfsstjórn í Belgíu eftir að ríkisstjórn hans sprakk í desember í fyrra. Ekki hefur tekist að mynda nýja stjórn eftir þingkosningar í maí.