Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Widodo formlega úrskurðaður forseti öðru sinni

21.05.2019 - 00:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Joko Widodo, forseti Indónesíu, vann sigur í forsetakosningunum 17. apríl og mun því sitja annað kjörtímabil á forsetastóli. Yfirkjörnefnd Indónesíu tilkynnti endanleg úrslit í dag, degi áður en boðað hafði verið, í von um að forðast uppþot. Widodo fékk 55,5 prósent atkvæða, en andstæðingur hans, Prabowo Subianto, 44,5 prósent.

„Þessi úrslit voru tilkynnt 21. maí og eru endanleg og bindandi,“ sagði Arief Budiman, formaður yfirkjörstjórnar, í beinni útsendingu. Sem fyrr segir átti að tilkynna úrslitin á morgun, miðvikudag. Óttast var að stuðningsfólk Subiantos myndi safnast saman við höfuðstöðvar kjörstjórnar og að óeirðir kynnu að brjótast út þegar endanleg úrslit yrðu kynnt, og því var gripið til þess ráðs að flýta birtingu þeirra án þess að tilkynna það fyrirfram.

Véfengir úrslitin og varar við óeirðum

Subianto hét því strax eftir kosningar að hann myndi véfengja sigur Widodos ef og þegar hann yrði tilkynntur. Fullyrti hann að víðtæk og umfangsmikil kosningasvik hafi verið höfð í frammi og varaði við því að óeirðir kynnu að brjótast út. Um 32.000 lögreglumenn voru settir í viðbragðsstöðu í höfuðborginni Jakarta, þar á meðal við höfuðstöðvar yfirkjörstjórnar, áður en úrslitin voru kynnt.