Weinstein samdi um greiðslu 25 milljóna Bandaríkjadala

12.12.2019 - 02:42
Harvey Weinstein, center, leaves court following a bail hearing, Friday, Dec. 6, 2019 in New York. (AP Photo/Mark Lennihan)
 Mynd: AP
Harvey Weinstein hefur náð samkomulagi við lögmenn ríflega þrjátíu kvenna sem höfðuðu mál á hendur honum vegna kynferðisbrota. Lögmaður leikkonu í þessum hópi staðfesti þetta í samtali við AFP-fréttastofuna í gær. Samkomulagið kveður á um að Weinstein greiði konunum 25 milljónir Bandaríkjadala, ríflega þrjá milljarða króna, sem þær skipta á milli sín, gegn því að þær felli niður allar kærur á hendur honum.

Konurnar, rúmlega 30 leikkonur og starfsmenn fyrirtækja Weinsteins, hafa ásakað og kært Weinstein fyrir fjölda kynferðisbrota, allt frá kynferðislegri áreitni upp í nauðgun. 

Samkvæmt samkomulaginu þarf Weinstein hvorki að viðurkenna að hann hafi gert nokkuð á hlut kvennanna, né að greiða þeim úr eigin vasa. TMZ-vefritið, sem sérhæfir sig í fréttum úr skemmtanabransanum, segir að tryggingarfélag hins gjaldþrota kvikmyndaframleiðslufyrirtækis Weinsteins, The Weinstein Company, borgi brúsann.

Til að samkomulagið öðlist gildi þurfa allir hlutaðeigandi að samþykkja það, auk þess sem dómstóll þarf að leggja blessun sína yfir það. Gangi það eftir verður Weinstein laus nokkurn veginn allra þeirra kæru- og kynferðisbrotamála sem höfðuð hafa verið á hendur honum síðan 2017.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi