Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Warmland og Axel Flóvent á Iceland Airwaves

Mynd með færslu
 Mynd: warmland - artist facebook

Warmland og Axel Flóvent á Iceland Airwaves

07.11.2019 - 12:21

Höfundar

Þá er Iceland Airwaves hátíðin skollin á og í Konsert í kvöld heyrum við tvenna tónleika frá Airwaves í fyrra; Axel Flóvent og Warmland í Gamla bíó.

Warmland er dúett skipaður tveimur reynsluboltum úr bransanum, þeim Arnari Guðjónssyni og Hrafni Thoroddsen en þeir eru þekktastir sem söngvarar hljómsveitanna Leaves og Ensími. Þeir vissu vel hver af öðrum en kynntust þegar þeir voru á tónleikaferðalagi um Kína með hljómsveitinni Bang gang fyrir nokkrum árum.

Warmland er popphljómsveit og það er eitt og annað í pípunum hjá þeim, sveitin er að spila á Airwaves í ár, verður svo í þýskalandi um miðjan mánuðinn og 22. Nóvember á M for Montreal hátíðinni í Kanada og er svo fulltrúi Rásar 2 á Eurosonic Festival í Hollandi í janúar. Warmland sendi frá sér breiðskífuna Unison Love fyrr á árinu og lögin sem sveitin spilaði á Airwaves í fyrra eru öll af henni.

Axel Flóvent er Húsvíkingur og vakti fyrst athygli árið 2016 þegar hann sendi frá sér fyrstu EP plötuna, Forest Fires. Hlustendur Rásar 2 hrifust strax að þessum unga manni og það gerðu líka fleiri, fólk um alla Evrópu.
Axel flutti til Hollands um það leyti þegar önnur Ep platan; Quiet eyes kom út. Hann var í Hollandi í eitt og hálft ár og þaðan flutti hann til Brighton á Englandi þar sem býr í dag eftir því sem Konsert kemst næst. Hann gerði nýlega samnig við Nettwerk Music Group sem er allt í senn plöutútgáfa og umboðsskrifstofa. Nettwerk mun sjá um mál Axels Flóvent næstu árin amk. Og núna síðar í mánuðinum er hann að fara í tónleikaferð sem upphitunarnúmer með hljómsveitinni The Paper Kites sem er á Melbourne í Ástralíu. Það síðasta sem hann sendi frá sér er 5 laga Ep platan Youthful Hearts í fyrra. Hann á enn eftir að senda frá sér stóra plötu.

Í lok þáttarins rifjum við svo upp tónleika með Eivør frá Iceland Airwaves 2009.