Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Vottunin mikilvæg þorskútflutningi

15.12.2010 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslenskar þorskveiðar hafa hlotið alþjóðlega vottun sem á að staðfesta ábyrga fiskveiðistjórnun og góða umgengni við auðlindir sjávar. Fulltrúar sjávarútvegsins tóku við vottuninni í dag en verkefnið hefur átt sér nokkuð langan aðdraganda.

Vottunin sem kallast Iceland Responsible Fisheries, byggir á leiðbeinandi reglum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, um vottun fiskveiða. Írsk óháð vottunarstofa gerði úttekt á þorskveiðum íslendinga og staðfesti að veiðarnar samræmdust alþjóðlegum kröfum. Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra segir þetta staðfesta góða fiskveiðistjórnun, vottunin sé gríðarlega mikilvæg íslenskum útflutningi. Þó vottunin sé alþjóðleg er merkið íslenskt og óþekkt, ólíkt til dæmis MSC vottuninni sem nokkur sjávarútvegsfyriræki hafa sótt um og kostar tugi milljóna. Íslenska merkið verður kynnt og markaðsett. ,,Það frumkvæði sem við höfum tekið hefur vakið athygli og það eru allmargar aðrar þjóðir komnar af stað eða að íhuga að fara sömu leið og við," segir ráðherra.