Vottun á siðrænum viðskiptum

Mynd með færslu
 Mynd:

Vottun á siðrænum viðskiptum

21.11.2013 - 14:13
Þessa dagana eru liðin 25 ár frá því að fyrstu réttlætismerktu vörurnar voru settar á markað, en réttlætismerking er það sem oft er nefnt „Fairtradevottun“ á fremur slakri íslensku.Þetta hefur líka verið nefnt siðgæðisvottun. Stefán Gíslason fjallar um það í pistli sínum sem má lesa hér að neðan


Réttlætismerking, eða hvað sem þessi vottun á að heita á íslensku, felur í sér staðfestingu á siðrænum viðskiptum með viðkomandi varning, sem jafnan á uppruna sinn í þróunarlöndunum. Merkið tryggir meðal annars að þeir sem unnu við framleiðslu vörunnar hafi notið lágmarksréttinda hvað varðar laun og aðbúnað og að barnaþrælkun hafi ekki verið stunduð við framleiðsluna. Þar að auki felur merkið í sér staðfestingu á því að inni í verði vörunnar sé dálítið aukagjald, sem framleiðandanum er skylt að verja í félagsleg verkefni í viðkomandi landi, t.d. til skólabygginga. Samt er verð þessarar vöru ekkert endilega miklu hærra en verð annarrar vöru til sömu nota. Ástæðan er sú, að réttlætismerktu vörurnar fara að jafnaði í gegnum mun færri milliliði en hinar vörurnar. Samtökin Fairtrade International, öðru nafni FLO, sem stofnuð voru árið 1997, halda utan um þetta kerfi á heimsvísu og hafa meðal annars milligöngu um beina samninga við framleiðendur. Um leið fá þau yfirsýn yfir alla vörukeðjuna og geta fylgst með að hvergi sé svindlað á skilmálunum sem fylgja þessari vottun. Vottunarstofan FLO-CERT sér síðan um úttektir til að ganga úr skugga um að öll skilyrði vottunar séu uppfyllt áður en viðkomandi vara fær að skarta réttlætismerkinu.

 Réttlætismerkingin á sem sagt 25 ára afmæli um þessar mundir. Fyrsta merkið af þessu tagi var hollenska Max Havelaar merkið, og fyrsta vottaða varan var kaffi frá Mexíkó sem selt var í hollenskum stórmörkuðum haustið 1988. Til fróðleiks má geta þess að Max Havelaar var aðalpersónan í bók hollenska rithöfundarins Eduard Douwes Dekker, Max Havelaar: Eða kaffiupboð Hollenska verslunarfélagsins, eins og bókin nefnist í lauslegri íslenskri þýðingu. Eduard, sem er betur þekktur undir höfundarnafninu Multatuli, skrifaði þessa bók árið 1860 til að mótmæla illri meðferð á kaffiverkamönnum í hollenskum nýlendum, sérstaklega í Hollensku Austur-Indíum, þar sem nú er Indónesía. Bókin hafði mikil áhrif og er af sumum talin hafa gengið að nýlendustefnunni dauðri, ekki bara í hollenskum nýlendum heldur um allan heim.

 Margt hefur breyst frá því að Hollendingar prentuðu fyrstu Max Havelaar merkin á mexíkóska kaffipakka haustið 1988. Þetta frumkvæði Hollendinga er orðið að alþjóðlegri hreyfingu og nú eru réttlætismerktar vörur, eða með öðrum orðum „Fairtrade-vörur“, seldar fyrir um 4,8 milljarða evra (eða um 790 milljarða ísl. kr.) á ári. Vottaðar vörur eru um 30.000 talsins, og er áætlað að um 1,35 milljónir bænda og landbúnaðarverkamanna njóti góðs af þessum viðskiptum. Upphaflega Max Havelaar merkið og nokkur önnur sambærileg merki í öðrum löndum, hafa auk heldur sameinast, þannig að nú er víðast notast við eitt og sama merkið. Því er ekki auðvelt að lýsa í útvarpi, nema hvað það felur í sér stílfærða mynd af mannveru í svörtum lit sem heldur annarri hendinni á lofti. Ofanvið og hægra megin við mannveruna er blár flötur, en ljósgrænn vinstra megin, nema náttúrulega þegar merkið er prentað í svarthvítu. Yfirleitt er svo orðið „Fairtrade“ prentað skýrum stöfum neðst í merkið.

 Í flestum nágrannalöndum okkar eru starfandi samtök sem halda utan um réttlætismerkinguna í viðkomandi landi. Þetta á meðal annars við um öll sjálfstæð ríki í Norðvestur-Evrópu, nema Ísland. Þegar allt er talið eru 19 slíkar landsskrifstofur starfandi. Sumar þeirra þjóna fleiri en einu landi, þannig að formlega séð nær kerfið til 24 landa.  Enda þótt ekkert slíkt kerfi sé til staðar á Íslandi, virðist framboð á réttlætismerktum vörum vaxa jafnt og þétt. Merkið er til dæmis orðið mjög algengt á súkkulaði, tei, sykurmolum og fleiri matvörum frá þróunarlöndunum, auk þess sem sjá má því bregða fyrir á fatnaði, svo eitthvað sé nefnt. Mér vitanlega eru engar tölur til um sölu þessa varnings hérlendis, enda er utanumhald um þær eitt af verkefnum landsskrifstofunnar sem ekki er til.

 Auk þess að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar aðstoða landsskrifstofur réttlætismerkisins við kynningu og markaðssetningu réttlætismerkts varnings hver á sínu svæði og liðsinna innflytjendum og dreifingaraðilum. Það er nefnilega ekki nóg að votta vöruna sjálfa, heldur þarf allt ferlið að vera vottað, alla leið frá framleiðanda til endanlegs neytanda. Réttlætismerkt vara sem er umpakkað í  nýju landi missir merkið ef enginn þar til bær aðili er til staðar til að fylgjast með þessum síðustu hlekkjum í vörukeðjunni. Landsskrifstofurnar aðstoða líka sveitarfélög sem vilja fá vottun sem „Fairtrade-bæir“ og skóla sem vilja fá vottun sem „Fairtrade-skólar“. Í báðum tilvikum þarf að uppfylla tiltekin skilyrði um fræðslustarfsemi, um aðgengi að réttlætismerktum vörum og sitthvað fleira. „Fairtrade-bæirnir“ í nágrannalöndunum eru komnir nokkuð á annað þúsundið, en hérlend sveitarfélög eiga, eðli málsins samkvæmt, ekki kost á þessu.

 Sem merki um velgengni réttlætismerkingarinnar í einstökum löndum má nefna að í Sviss er meira en helmingur allra banana réttlætismerktur og hið sama gildir um meira en 40% af öllum pökkuðum sykri í Bretlandi og fimmta hvert blóm sem selt er í Þýskalandi. Samt ná viðskipti með réttlætismerktar vörur ekki einu prósenti af heimsmarkaði fyrir umræddar vörutegundir. Til að bregðast við þessu hafa alþjóðasamtökin sett sér stefnu til þriggja ára undir yfirskriftinni „Unlocking the Power of the Many“, eða „Máttur fjöldans leystur úr læðingi“, enda er það orðið aðkallandi að mati samtakanna að færa hagnaðinn í vörukeðjunni nær framleiðendunum. Örlítið minni hagnaður á okkar enda keðjunnar getur skipt sköpum fyrir afkomu framleiðendanna á hinum endanum og þeirra samfélaga sem þeir byggja.

 Fyrir meðvitaða neytendur er réttlætismerking auðveld og þægileg leið til að vera viss um að þeir sem framleiða fyrir þá vöruna hafi mannsæmandi laun og búi við sómasamleg skilyrði. Eða eins og Marike de Pena, framkvæmdastjóri BANELINO, sem eru Fairtrade-samtök í Dómíníkanska lýðveldinu orðar það: „Réttlætismerking er ein virkasta aðferðin sem til er til að tryggja efnahagslegar, félagslegar og umhverfislegar framfarir hjá smábændum, fjölskyldum þeirra og samfélögunum sem þau búa í. Styrkur kerfisins liggur í því að fólk tekur stjórnina á eigin lífi með vinnu sinni og getur fjárfest í betri framtíð“.  

 Með því að kaupa réttlætismerktar vörur leggur maður sitt af mörkum til þróunaraðstoðar, getur treyst því að sú aðstoð komist til skila og að hún nýtist þar sem hún á að nýtast.