Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vorboðinn á Hrafnseyrarheiði í 46 ár

02.04.2019 - 17:55
Þegar Dýrafjarðargöng leysa Hrafnseyrarheiði af hólmi fer ég og ferðast, segir maðurinn sem hefur rutt heiðina í 46 ár. Árlegur vormokstur hófst í dag. 

Snjóþykkt náð 22 metrum

Þótt enn sé vetrarlegt uppi á Hrafnseyrarheiði þá er vorboðinn mættur, hann Gunnar Gísli sem hefur rutt heiðina frá árinu 1973. „Það gætu hafa dottið út eitt eða tvö ár?,“ segir Gunnar Gísli Sigurðsson. Og var hún þá kannski alls ekki opnuð?, „Jú, jú, það þiðnaði af henni fyrir rest.“ Vegurinn um Hrafnseyrarheiði, á milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða, er ekki ruddur yfir háveturinn eða til 20. mars, og þá jafnan í meiri snjó en í ár. „Þetta er bara brot af því sem að það hefur mælst mest. Þetta voru mældir einhvern tímann 22 metrar,“ segir Gunnar við snjóvegginn sem hefur myndast. Hann segir slíkt verk taka viku til tíu daga. 

Skoða að halda veginum við

Þetta er í líklega í næstsíðasta sinn sem Gunnar opnar veginn að vori, enda leysa Dýrafjarðargöng heiðina af hólmi. Þau á að opna haustið 2020. Hvað tekur við þegar göngin koma? „Taka bara við rólegheitin og svona, ferðast og svona,“ segir Gunnar. Hugmyndir eru uppi um að veginum verði áfram haldið við og ekki alveg útilokað að hann verði ruddur áfram. „Okkar vonir standa til þess að þetta verði sumarvegur, það mokað í byrjun júní og að þetta verði þá hringleið og tenging við Hrafnseyri,“ segir Guðmundur Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði. 

Tvisvar hrapað niður brekkurnar

Gunnar hefur, eins og fleiri, fengið að finna fyrir heiðinni. „Ég er tvisvar búinn að fara hérna niður á tæki.“ Og sloppið frá því? - „Ég er hér allavega.“ Það kom þó ekki í veg fyrir að hann færi upp eftir á ný. Farið að þykja vænt um þessa heiði? „Ég veit það ekki, jú, ætli það ekki bara.“  

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður