Vor í vændum síðar í vikunni

01.04.2019 - 07:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Dagurinn heilsar með fremur hægum vindi, áttin er suðlæg eða breytileg. Það eru dimm él á Suður- og Vesturlandi og einnig snjóar dálítið á norðausturhorninu, segir veðurfræðingur Veðurstofunnar í hugleiðingum sínum.

áfram hægur vindur þegar kemur fram á daginn, en él verða sjaldgæfari. Hiti kringum frostmark. Í kvöld og nótt gengur í allhvassa norðanátt á landinu og snjókomubakki kemur inn á norðanvert landið, þetta gerist fyrst á Vestfjörðum. Eins og stundum vill verða í norðanátt nær vindur sér á strik við Vatnajökul og frá því seint í nótt og fram yfir hádegi á morgun gætu vindstrengir þar náð stormstyrk.

Styttir upp og herðir frost á morgun

Síðdegis á morgun lægir, styttir upp og herðir á frosti. Á miðvikudag gengur í stífa sunnanátt með rigningu eða slyddu á Suður- og Vesturlandi og hlýnar í veðri. Ef við lítum lengra fram í tímann, þá eru líkur á rólegu veðri frá fimmtudegi til sunnudags, úrkomulítið á landinu og hitinn mjakast uppávið. Ef þessi spá gengur eftir má segja að það sé vorlegt veður í vændum seinni helming vikunnar.

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV