
Fimm ríki lang umsvifamest í hergagnaútflutningi
Fimm mestu hergagnaútflytjendur heims voru sem fyrr Bandaríkin, Rússland, Frakkland, Þýskaland og Kína, sem samanlagt eru ábyrg fyrir meira en þremur fjórðu hluta alls hergagnaútflutnings í heiminum. Af þessum fimm ríkjum voru það einkum tvö, Bandaríkin og Frakkland, sem juku hergagnaútflutning sinn síðustu fimm árin, en vopnasala Rússa dróst töluvert saman.
Útflutningur Frakka jókst um 72 prósent
Bandarískur vopnaútflutningur jókst um 23 prósent en Frakkar fluttu á sama tíma heilum 72 prósentum meira út af stríðstólum hvers konar en fimm árin þar á undan. Diego Lopes Da Silva, sérfræðingur hjá SIPRI, segir Frakka einkum hafa hagnast á aukinni eftirspurn frá Egyptalandi, Katar og Indlandi.
Kollega hans, Pieter D. Wezeman, segir helming alls útflutnings bandarískra hergagnaframeiðenda fara til Miðausturlanda, og helmingurinn af því fer á einn stað - Sádi-Arabíu. Á sama tíma hafi eftirspurn eftir bandarískum orrustuþotum aukist , einkum í Evrópu, Ástralíu, Japan og Taívan.
Bandaríkin flytja mest út, samdráttur hjá Rússum
Bandaríkin eru sem fyrr langumsvifamesti vopnaútflytjandi heims, á undan Rússum. Hergagnaútflutningur Rússa dróst hins vegar saman um 18 prósent á árunum 2015 - 2019, samanborið við árin fimm þar á undan.
Alexandra Kuimova, sérfræðingur hjá SIPRI, segir þetta einkum skýrast af minnkandi áhuga Indverja á rússneskum vopnum og vígvélum hvers konar, og aukin hergagnasala þeirra til Egyptalands og Íraks á sama tíma hafi ekki dugað til að vega upp á móti þeim samdrætti. Indverjar eru, samkvæmt skýrslu SIPRI, næst-mestu hergagnainnflytjendur heims, á eftir Sádi-Aröbum.