Vopnasölubann til Líbíu samþykkt í Berlín

19.01.2020 - 23:09
epa08141488 German Chancellor Angela Merkel (C) opens the International Libya Conference in Berlin, Germany, 19 January 2020. By means of the 'Berlin Process', German government seeks to support the peace efforts of the United Nations (UN) to bring about an end to the conflict in Libya. Following the renewed outbreak of hostilities in April 2019, UN presented a plan to stop further military escalation and resume an intra-Libyan process of reconciliation.  EPA-EFE/Guido Bergmann / POOL
 Mynd: EPA-EFE - GERMAN GOVERNMENT POOL
Fjöldi þjóðarleiðtoga samþykkti samkomulag um að hætta öllum erlendum afskiptum af átökum í Líbíu. Lagt verður algjört bann á vopnasölu til landsins, flutning hermanna þangað og fjármögnun. Á fundi sínum í Berlín í dag tókst þeim hins vegar ekki að ýta af stað viðræðum á milli stríðandi fylkinga. 

Mikil upplausn hefur verið í Líbíu eftir að einræðisherrann Moammar Gaddafi var tekinn af lífi árið 2011. Nú standa helstu átökin á milli stjórnar Fayez al-Sarraj, sem er alþjóðlega viðurkennd, og hernaðarleiðtogans Khalifa Haftar. Hvorki tókst að leiða fulltrúa þeirra til viðræðna né að fá fylkingar þeirra til að undirrita viðvarandi vopnahléssamning.

Bjartsýn á framhaldið

Angela Merkel, sem tók á móti þjóðhöfðingjunum í Berlín, sagðist vona að ráðstefnan verði til þess að vopnahlé eigi eftir að halda í landinu. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að enn væri mörgum spurningum ósvarað, en hann væri bjartsýnn á að átök í landinu eigi eftir að minnka. Eins vonaðist hann til þess að fundurinn opni möguleika á viðræðum á milli stríðandi fylkinga í Líbíu, sem Ghassan Salame, erindreki Sameinuðu þjóðanna í Líbíu, hefur reynt að ná fram.

Undanfarna mánuði hafa sveitir Haftars gert árásir á stjórnarher Sarraj í höfuðborginni Tripoli, þar sem Sarraj er við völd. Alls hafa 280 almennir borgarar látið lífið í átökum í landinu og tugþúsundir orðið að flýja heimili sín, auk þess sem tvö þúsund hermenn hafa fallið. Stjórnvöld í Tyrklandi og Rússlandi knúðu fram vopnahlé um síðustu helgi.

Útbreiðslu átaka afstýrt?

Þó stjórn Sarraj sé alþjóðlega viðurkennd hafa nokkrar stórþjóðir snúist á sveif með Haftar. Þannig hafa átökin í Líbíu orðið að nokkurs konar staðgöngustríði á milli stórvelda innan Líbíu, líkt og raunin hefur verið víðar í Miðausturlöndum. Óttast var að átökin myndu harðna enn frekar á síðustu vikum eftir að Tyrklandsstjórn ákvað að senda herlið til að styðja stjórn Sarraj.

Antonio Gutierres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði að hætta hafi verið á að átökin ættu eftir að breiðast út frá Líbíu. Þeirri hættu var bægt frá í Berlín í dag að hans sögn.

Rússneski utanríkisráðherrann Sergei Lavrov sagði að margt jákvætt hafi komið út úr fundi leiðtoganna, þó ekki hafi tekist að hrinda af stað alvöru viðræðum á milli Haftars og Sarraj. Niðurstöður fundarins sé þó stutt skref í þá átt.