Vopnahlé í Líbíu

12.01.2020 - 06:37
epaselect epa07489297 Vehicles and militants, reportedly from the Misrata militia, gather to join Tripoli forces, in Tripoli, Libya, 06 April 2019. According to reports, commander of the Libyan National Army (LNA) Khalifa Haftar ordered Libyan forces loyal to him to take the capital Tripoli, held by a UN-backed unity government, sparking fears of further escalation in the country.  EPA-EFE/STRINGER
Bifreiðar vopnaðra sveita frá Misrata sem styðja stjórnina í Trípólí. Mynd: EPA-EFE - EPA
Samkomulag hefur náðst um vopnahlé í borgarastríðinu í Líbíu, að undirlagi Rússa og Tyrkja. Líbíski stríðsherrann Khalifa Haftar og bardagasveitir sem fylgja honum að málum boðuðu í gær vopnahlé í vesturhluta landsins. Þar hefur her Haftars, hinn svokallaði Líbíski þjóðarher, sótt hart fram upp á síðkastið og náði meðal annars borginni Sirte á sitt vald í liðinni viku eftir harða sókn úr lofti og á landi.

Á fimmtudag vísaði Haftar á bug sameiginlegri tillögu Rússa og Tyrkja um vopnahlé í Líbíu. Í gærkvöld brá hins vegar svo við að talsmaður Líbíska þjóðarhersins, Ahmed Mismari, tilkynnti að Haftar og her hans samþykktu vopnahléstillöguna, með því skilyrði að andstæðingar þeirra, hersveitir sem fylgja Trípólístjórninni að málum, virði vopnahléið í einu og öllu. Mismari varaði við því að „minnstu brotum [á vopnahléinu] verði svarað af mikilli hörku."

Trípólístjórnin samþykkir líka vopnahlé

Háttsettur embættismaður Trípólístjórnarinnar sagði stjórnina fagna öllum raunhæfum og sanngjörnum vopnahléstillögum, en væri jafnframt skylt að verja líbísku þjóðina gegn árásum Haftars. Í morgun barst svo tilkynning frá Trípólístjórninni, um að hún væri einnig reiðubúin að undirgangast samkomulagið, sem Rússar og Tyrkir lögðu fram.

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna í Líbíu fagnar vopnahléinu og hvetur stríðandi fylkingar til að „virða það til hins ítrasta svo að vinna megi að því að leysa úr deilunum með viðræðum."

Hófleg bjartsýni á að vopnahléið haldi

Tyrkir styðja Trípólístjórnina, sem jafnframt er sú stjórn sem Sameinuðu þjóðirnar styðja og flestar þjóðir aðrar, en Rússar fylgja Haftar að málum. Takmörkuð bjartsýni ríkir þó um að vopnahléið haldi lengi, þar sem bardagar hafa farið harðnandi fremur en hitt í nágrenni Sirte og höfuðborgarinnar Trípólí.

Það gerir vopnahléið svo enn brothættara, að báðar fylkingar samanstanda af ótraustum bandalögum margra vopnaðra hreyfinga, sem sumar hverjar hafa ítrekað skipt um málstað. Fyrr í gær tilkynnti Angela Merkel Þýskalandskanslari að ríkisstjórn hennar hygðist bjóða leiðtogum helstu fylkinga til friðarviðræðna í Berlín, ef grundvöllur myndaðist fyrir slíku. 

Fréttin var uppfærð klukkan 08.15

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV