Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vopnahlé gengið í gildi í Idlib-héraði

06.03.2020 - 00:39
epa08269768 A group of migrants and refugees walk to Pazarkule Border gate during the sunset at the city center of Edirne, Turkey, 04 March 2020. Thousands of refugees and migrants are gathering on the Turkish side of the border with Greece with the intention of crossing into the European Union following the Turkish government's decision to loosen controls on migrant flows after the death of 33 Turkish soldiers killed in an attack in Idlib, Syria, on 27 February 2020.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
Hundruð þúsunda almennra borgara hafa hrakist á flótta vegna harðrar sóknar sýrlenska stjórnarhersins að uppreisnarmönnum í Idlib. Stór hluti þessa fólks forðar sér til Tyrklands, þaðan sem það vonast til að komast áfram til Evrópu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Allt hefur verið með „tiltölulega kyrrum kjörum" í Idlib-borg og samnefndu héraði í norðanverðu Sýrlandi eftir að vopnahlé tók þar gildi á miðnætti, eða klukkan tíu í kvöld að íslenskum tíma, að undirlagi Rússa og Tyrkja.

Heimildarfólk Sýrlensku mannréttindavaktarinnar á vettvangi greinir frá þessu. Í tilkynningu samtakanna, sem eru með bækistöðvar í Bretlandi, segir að Sýrlendingar og bandamenn þeirra Rússar hafi hætt öllum loftárásum á miðnætti. Aftur á móti herji Sýrlandsher enn á vígi uppreisnarsveita í tveimur aðliggjandi héruðum, Aleppo og Hama, með stórskotahríð á jörðu niðri.

Sömdu um vopnahlé í Moskvu

Stjórnvöld í Rússlandi og Tyrklandi sömdu sín á milli um vopnahléið og skilmála þess. Forsetar landanna, þeir Vladimír Pútín og Recep Tayyip Erdogan, ræddust við í Moskvu í dag að frumkvæði Rússlandsforseta. Hæfileg bjartsýni ríkti fyrir fundinn, en eftir sex klukkustunda viðræður forsetanna og ráðgjafa þeirra var tilynnt að samkomulag hefði náðst.

Meðal vopnahlésskilmála er ákvæði um sex kílómetra breitt öryggissvæði beggja vegna þjóðvegarins sem tengir borgirnar Latakia og Aleppo, sem báðar eru á valdi sýrlenska stjórnarhersins, og sameiginlegt eftirlit Rússa og Tyrkja á þessu svæði frá og með 15. mars. Tyrkir áskilja sér þó réttinn „til að svara af fyllstu hörku öllum árásum“ af hálfu sýrlenska stjórnarhersins, sagði Erdogan á fréttamannafundinum, þar sem vopnahléið var tilkynnt.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV