Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vont að líða eins og fatlaðir séu minna virði

Mynd með færslu
 Mynd:
Mér sýnist stjórnvöld ætla að líta framhjá þroskahömluðum börnum sem vistuð voru á öðrum heimilum en Kópavogshæli. Þetta segir Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar um skýrslu um uppgjör sanngirnisbóta, sem birt var fyrir helgi, og afstöðu stjórnvalda til frekari bótagreiðslna.

Niðurstaða stjórnvalda kom á óvart

„Ég skildi þetta þannig að vinnu við útgreiðslu sanngirnisbóta væri lokið samkvæmt þessum lögum og það ætti ekki að skoða fleiri mál því það væru ekki fleiri mál á borðinu. Þetta kom mér töluvert á óvart því þegar að skýrslan um Kópavogshælið kom út þá var í henni beinlínis sagt að það væri ekki ástæða til að ætla annað en að börn sem voru vistuð vegna fötlunar sinnar á öðrum stöðum á sama tíma hafi líka sætt illri meðferð. Hins vegar segir í skýrslunni að það sé hugsanlega ekki ástæða til að fara í sérstaka rannsókn, það væri líka bara hægt að viðurkenna að það hafi verið svoleiðis. Mér sýnist að það hafi bara verið ákveðið að líta algerlega framhjá þessu þannig að börn sem voru vistuð annars staðar njóta ekki sömu sanngirni og það finnst mér mjög sárt. Stjórnvöld verða auðvitað að ákveða hvernig þau fara með þetta en mér finnst mjög skrítið að þau ákveði bara að gera ekki neitt.“

Vill ekki fullyrða um meðferð 

Hún nefnir Skálatún, Sólheima og Sólborg á Akureyri en einnig staði sem tóku við þegar Kópavogshæli lokaði, Vonarland á Egilsstöðum og Bræðratunga á Ísafirði. Hún vill ekki fullyrða hvort börnin sættu jafnillri meðferð og börnin á Kópavogshæli. „Ég var ekki á þessum stöðum og hef ekki kynnt mér þetta sérstaklega en mér finnst skrítið að það sé ekki einhver lúkning á þessum málum. Við erum að berjast fyrir því að við séum öll jöfn fyrir lögum óháð atgervi okkar og það er þessi tilfinning að fatlað fólk sé ekki eins mikils virði í samfélaginu, hún er vond og þetta kveikti þá tilfinningu.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV