Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonsvikin með að fá ekki að fara í land

05.05.2019 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kayakklúbburinn
Kayakræðarar eru ósáttir við friðlýsingu Akureyjar og segjast vonsviknir að fá ekki að fara í land í eynni. Umhverfisráðherra friðlýsti eyjuna á föstudag og skilgreindi sem sérstakt búsvæði mikilvægra sjófugla í útrýmingarhættu.

Félagsmenn í Kayakklúbbi Reykjavíkur hafa nýtt eyjarnar í Kollafirði sem áningarstaði í styttri róðrartúrum út frá Geldinganesi. Það tekur skamma stund að róa út í Akurey, sem er ysta eyjan í Kollafirði.

„Það er eitt af því frábæra við þessa aðstöðu sem við höfum að við erum bara á nokkrum mínútum komin í hreina náttúru; Viðey og eyjarnar þarna í kring. Akurey meðal annars,“ segir Sigurjón Magnússon, formaður Kayakklúbbs Reykjavíkur. „Það eru forréttindi að geta notið íslenskrar náttúru ein sog við gerum hér bara innan Reykjavíkurmarka.“

Segir Sigurjón Magnússon, formaður Kayakklúbbs Reykjavíkur. Í friðlýsingarskilmálum Akureyjar er umferð um eyjuna takmörkuð. Þar er nú óheimilt að fara í land nema með leyfi Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar. Þetta er gert til þess að vernda fuglalífið og lágmarka truflun.

Stjórnendur Kayakklúbbsins vonast til þess að geta haft áhrif á gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Akurey sem klára á á næstu mánuðum, fyrst óskir klúbbsins voru hunsaðar við gerð friðlýsingarinnar.

„Þetta eru svolítið blendnar tilfinningar. Við óskuðum í rauninni eftir að Kayakklúbburinn, í ljósi þess anda sem þeir starfa og hvernig þeir hafa sýnt snyrtilega umgengni, að við fengjum aðgengi að eyjunni frá sjó,“ segir Sigurjón. „Og það hefur því miður verið þannig undanfarið að það er verið að þrengja og þrengja að útivistarfólki og ég tala nú fyrir hönd kayakfólksins að það er orðið erfiðara að nálgast land af sjó.“

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV