Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vonir bundnar við hreysti framtíðaröldunga

Mynd: EBU / EBU
Öldruðum á eftir að fjölga mikið á næstu áratugum. Áhersla á heimaþjónustu, heilsueflingu og þjálfun fer vaxandi en dugar það til? Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, telur ekki raunhæft að útgjöld til hjúkrunarheimila verði stóraukin á næstu áratugum en hvað þýðir það? Þarf þá að skerða þjónustuna?

Ekki raunhæft í okkar samfélagi að tvöfalda þessa tölu

„Það liggur fyrir að á síðustu tíu til fimmtán árum hefur plássum á hjúkrunarheimilum ekki fjölgað hlutfallslega í samræmi við fjölgun aldraðra. Við höfum verið að súpa seyðið af því á síðustu árum með nánast daglegum fréttum af Landspítalanum þar sem fjöldi aldraðra bíður. Fólk sem á í raun ekki að vera á spítala en ekki er hægt að útskrifa heim þar sem ekki eru til hjúkrunarrými fyrir það. Það þarf náttúrulega verulega að fjölga hjúkrunarheimilum en stóra málið í okkar samfélagi, næstu ár, er að reyna að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir til þess að fresta því að fólk þurfi að fara inn á hjúkrunarheimili. Það er hægt að fara í alls konar endurhæfingarátök, vera með endurhæfingu fyrir aldraðra, forvarnarstarfsemi í formi hreyfingar þannig að fólk fari seinna inn á hjúkrunarheimili en ella. Þetta er mesti fjárhagslegi sparnaðurinn sem hægt er að vinna að í þessu kerfi og aðalatriðið kannski að það bætir lífsgæði fólks.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Á Hrafnistu.

En vilja ekki allir lifa heilbrigði lífi. Er verið að leggja allt traust á að heilsuefling forði okkur frá vandræðum í framtíðinni? Að fólk verði stálhraust fram að níræðisafmælinu og þurfi síður á hjúkrunarheimili? Er þetta ekki óraunhæft? Verður ekki þörfin meiri? 

„Þetta er mjög skemmtileg umræða og áhugaverð. Í dag erum við að nota rúma 30 milljarða á ári í rekstur hjúkrunarheimila og það eru kannski ekki nema 20 til 30 ár í að við þyrftum að tvöfalda þessa tölu ef við ætluðum að hafa sama hlutfall af hjúkrunarrýmum í boði og er í dag. Ég held að það að tvöfalda þessa tölu sé bara ekki raunhæft í okkar samfélagi. Við þurfum að finna aðrar raunhæfar leiðir til þess að mæta þessu og rannsóknir hafa sýnt fram á að með skipulagðri hreyfingu og endurhæfingu er hægt að seinka því að fólk fari inn á hjúkrunarheimili. Þetta eru ódýrari úrræði en hjúkrunarheimili þannig að fyrir hvern mánuð eða ár sem hægt er að seinka því að einhver fari inn á hjúkrunarheimili erum við að spara töluvert mikla fjármuni. Auðvitað vitum við ekki fyrir fram hver verður heppin og líkamsræktin veldur því að honum seinkar inn á hjúkrunarheimili en með líkindareikningi eigum við að geta fengið mjög raunhæf viðmið og tölur í þá átt að nýta fjármuni samfélagsins betur og auka lífsgæði fólks.“

Hann veit ekki til þess að það séu stórar, nákvæmar rannsóknir á því hversu mikið myndi muna um aukna endurhæfingu og heilsurækt. „En bara það að seinka fólki um nokkra mánuði sparar samfélaginu gríðarlega og gæti létt á Landspítalanum líka, hver dagur þar er mjög dýr.“ 

Fjölgar mjög í hópi aldraðra á næstu áratugum

Frjósemi hefur aldrei verið minni, var 1,71 barn á hverja konu í fyrra. Hlutfall aldraðra af heildaríbúafjölda á landinu kemur til með að hækka hratt á næstu árum. Að óbreyttu verður erfiðara fyrir vinnandi fólk að halda uppi velferðarkerfinu, þegar fram líða stundir. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Í dag hefur tæpur fimmtungur aldraðra yfir áttræðu þörf fyrir hjúkrunarrými.

Árið 2057 áætlar Hagstofan að íbúar á Íslandi verði um 444 þúsund talsins. Þar af verði tæplega hundrað þúsund eldri en 67 ára eða 22%. Í fyrra voru tæplega 41 þúsund eldri en 67 ára. Fjöldinn í þessum hópi á því eftir að rúmlega tvöfaldast á næstu fjörutíu árum. 

Ráðherra boðar sókn

Ef ekkert stórvægilegt breytist hvað varðar þörf aldraða fyrir hjúkrunarrými þarf að fjölga þeim verulega á næstu áratugum. Stendur það til? Heilbrigðisráðherra boðaði nýverið sókn. Stefna heilbrigðisráðuneytisins er að fólk búi heima eins lengi og mögulegt er. Þegar það er ekki lengur hægt þrátt fyrir stuðning getur fólk sótt um dvöl í hjúkrunarrými. Í vinnuskjali ráðuneytisins er reiknað með því að árið 2023 verði þörf fyrir 3169 hjúkrunarheimi á landinu. Fram kemur að 309 rými séu þegar á áætlun. Það vanti því 268 til viðbótar til þess að mæta þörfinni. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019 til 2023 er gert ráð fyrir því að bæta við 241 rými til viðbótar. Það uppfyllir fyrirsjáanlega þörf að mestu en þó ekki alveg. Þá stendur til að bæta aðbúnað víða - þannig er tryggt að eldri rými nýtist áfram - það fjölgar þeim ekki. Kostnaður við þetta allt nemur um 10,5 milljörðum.

Nú dvelja um 7% aldraðra á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmin eru 2700 talsins. Biðlistar eftir því að komast inn á hjúkrunarheimili eru langir og hafa lengst, tæplega eitt prósent aldraðra bíða eftir plássi. Ef þetta hlutfall breytist ekki má ætla að 6927 þurfi á hjúkrunarrými að halda eftir fjörutíu ár. Þetta er einfaldur útreikningur og ekki horft til þátta sem kunna að hafa áhrif, svo sem áætlaðrar fjölgunar í hópi háaldraðra eða fjölda á biðlistum. Frá árinu 2023 til ársins 2057 þyrfti, miðað við þessar forsendur, að byggja hátt í 4000 rými. 

Næstum þrefalt fleiri rými en í dag

Heilbrigðisráðuneytið horfði við útreikninga á þörfinni árið 2023 til stöðunnar nú. Gert var ráð fyrir því að 17,7% íbúa yfir áttræðu þyrftu að vera á hjúkrunarheimili en 1,7% fólks á aldrinum 67 til 79 ára. Ef þetta verður áfram raunin árið 2057 verður þörf á því að reka tæplega 7600 rými það ár, næstum þrefalt fleiri en í dag með tilheyrandi kostnaði - nema auðvitað heilsuefling og heimaþjónusta dragi mjög úr þörfinni. Það þyrfti kannski að rannsaka betur hversu þungt þeir þættir eiga eftir að vega í stóra samhenginu.