Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vonbrigði að Andrés og Rósa studdu vantraust

06.03.2018 - 20:36
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það séu sér vonbrigði að Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn flokksins, hafi greitt atkvæði með vantrausti á dómsmálaráðherra. Þau voru einu þingmenn stjórnarflokkanna þriggja sem studdu vantrauststillöguna sem þingmenn Samfylkingarinnar og Pírata báru fram. Hvorugt þeirra studdi ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þegar samið var umþ að.

„Það eru mér vonbrigði að þau hafi valið að gera það í ljósi þess að á sínum tíma, þegar við fórum inn í ríkisstjórnarsamstarfið, að þá bókaði þingflokkur Vinstri grænna að hann lýsti sig fylgjandi því að fylgja félagslegri niðurstöðu flokksráðsfundar þar sem við ákváðum að fara inn í þetta ríkisstjórnarsamstarf,“ segir Katrín. „Á þeim tíma var auðvitað héraðsdómur fallinn, fyrir utan okkar málflutning í málinu, þannig að stóru atriðin máttu öllum vera ljós á þeim tíma.“

Katrín segir að það liggi fyrir að stjórnarandstaðan hafi nálgast vantrauststillöguna á dómsmálaráðherra á mjög ólíkan hátt. Sumir hafi rætt um landsréttarmálið, aðrir að stjórnin hafi ekki gert nóg í velferðarmálum og einn að heilbrigðisráðherra hafi gert eitthvað fyrir tvennum kosningum síðan.

„Hér liggur fyrir afgreiðsla þingsins. Eins og ég sagði klárt og skýrt í minni ræðu þá er það svo að ég gagnrýndi þessa embættisfærslu dómsmálaráðherra á sínum tíma og tel að sú gagnrýni hafi verið staðfest í Héraðsdómi og síðar í Hæstarétti.“ Það hafi þó ekki leitt til afsagnar eða stuðnings við vantrauststillögu.