Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vonast til að semja á morgun eða hinn

06.01.2015 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Vonast er til að samningar náist í kjaradeildu ríkisins og Læknafélags Íslands jafnvel á morgun eða hinn. Verið er að fínpússa smærri atriði og enn verið að ræða stærri mál, segir fulltrúi lækna. Næsti samningafundur hefst kl. 13.

Kjaraviðræður lækna og ríkisins hafa gengið nokkuð vel síðustu tvo daga. Einstaka atriði eru óleyst. Hljóðið í báðum samninganefndum er þannig að vonast er til að takist að semja næstu sólarhringa. 

„Nokkur mál skiluðust og það voru einstaka atriði sem voru að vefjast ennþá fyrir okkur. Það svona bæði miðaði áfram og afturábak“, sagði Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, klukkan að verða hálfeitt í nótt að loknum samningafundi. 

„Við erum að fínpússa smærri atriðin. Það eru eins og ég segi svona stærri mál sem ennþá er verið að ræða og hefur gengið ágætlega undanfarna tvo daga. Við áttum okkur öll á hvernig ástandið er akkúrat núna út af verkfallinu og yfirvofandi fleiri verkföll“ segir Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir í samninganefnd Læknafélags Íslands.

Bryndís segist ekki búast við því að eitthvað komi upp á sem setji allt í hnút og geri það að verkum að það semjist ekki á morgun eða hinn: „Nei ég sé það ekki fyrir mér og það er alveg á hreinu að fólk er að tala saman.“

Verið að breyta grunnsamningi frá 2006

Í sama streng er tekið í hinum herbúðunum, þ.e. að samningar hljóti að nást í dag, á morgun eða hinn. Núverandi samningur lækna og ríkisins byggir á grunni frá 2006. Í þessum samningaviðræðum er verið að breyta nokkuð þessum grunni. Það þýðir að textinn er annar og mikilvægt en tímafrekt að deilendur verði sammála. Þá eru læknahóparnir þrír nokkuð ólíkir, þ.e. sérfræðingar á spítölum, heilsugæslulæknar og almennir læknar á spítölum. Læknar leggja áherslu á að grunnlaun verði hækkuð en segjast þegar hafa slegið mikið af kröfum sínum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði fyrir viku að ekki yrði lengra gengið af hálfu ríkisins í frekari tilboðsgerð.