Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonast til að geta komið aftur til vinnu

01.10.2019 - 19:20
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa Drífudóttir - RÚV
Starfsfólk Ísfisks vonast til að geta hafið störf á ný. Öllu starfsfólki fyrirtækisins, hátt í sextíu manns, var sagt upp störfum í gær. Þá hafði það ekki enn komið aftur til vinnu frá upphafi sumarleyfa um miðjan júlí. Uppsagnir eru með þeim fyrirvara að Ísfiskur nái ekki að leysa lausafjárvanda sinn.

„Ég er alveg vongóður um að það muni ganga, en auðvitað getur brugðið til beggja vona í því. Við reynum að gefa þessu eins stuttan tíma og hægt er, en þó nægjanlegan,“ segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks.

Ísfiskur hefur þá leitað til Byggðastofnunar eftir langtímaláni svo hægt sé að bregðast við. Málið liggur enn fyrir hjá stofnuninni og því ekki ljóst hvernig fer. Bæjarstjórn Akraness hefur veitt fyrirtækinu liðsinni.

„Forsvarsmenn þessa fyrirtækis hafa lagt fram trúverðugt plan um það hvernig þetta fyrirtæki á að byggjast upp til framtíðar. Við vonum bara að Byggðastofnun sjái að hér sé lífvænlegt fyrirtæki sem gæti starfað hér næstu áratugina,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri.

Stór hluti starfsfólks Ísfisks gekk einnig í gegnum uppsagnir þegar HB Grandi hætti eftir áralanga starfsemi á Akranesi 2017. Guðrún Linda Helgadóttir, fiskvinnslukona hjá Ísfiski, er vongóð um framhaldið.

„Maður vonaði að það væru betri fréttir, en ég er ekki búin að gefa út vonina að það komi betri fréttir. Ég bara vona að hann fái fyrirgreiðslu og geti kallað okkur í vinnu aftur,“ segir hún.

Jóhann Þór Sigurðsson, tækjamaður hjá Ísfiski, hefur unnið í fiskvinnslu á Akranesi í yfir 40 ár.

„Maður náttúrulega bíður bara eftir því að þeir fái svar. Hvort þeir fái eitthvað aukafjármagn. Það á að vera ljóst á næstu fjórtán dögunum. Vonandi á morgun, en maður veit aldrei hvenær þetta kemur í ljós,“ segir hann.