Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vonar að ríkisstjórn noti skýrsluna í aðgerðir

26.08.2018 - 18:21
Innlent · BHM · Kjaramál
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður Bandalags háskólamanna vonar að ríkisstjórnin grípi til aðgerða á grunni skýrslu Gylfa Zoega hagfræðiprófessors, sem stuðli að gangi kjaraviðræðna. Hún segir að í komandi kjaraviðræðum þurfi fyrst og fremst að skoða kaupmátt og hvort verðbólga éti upp kauphækkanir.

Þórunn segir að skýrsla, sem Gylfi gerði um efnahagsástandið í aðdraganda kjarasamninga fyrir forsætisráðuneytið, sé ágætur umræðugrundvöllur og hún lýsi vel stöðunni.  

„Og svo er það auðvitað líka þannig að Gylfi nefnir mörg atriði í sinni skýrslu sem til dæmis við hjá BHM og fleiri í hreyfingu launafólks hafa auðvitað verið að benda á lengi eins og stöðu húsnæðiskerfisins og hverjir beri byrðarnar og hverjir ekki og það er líka ágætt að prófessor í hagfræði dragi það fram.“

Sem að tekur undir með ykkur?

„Já í rauninni. Og svo vonandi sjá stjórnvöld, ríkisstjórnin sérstaklega í þessu tækifæri til þess að grípa til aðgerða sem stuðla þá að gangi kjaraviðræðna og stuðla að góðri niðurstöðu fyrir okkur öll.“

Gylfi nefnir að það sé svigrúm til fjögurra prósenta launahækkunnar. Það er nú kannski endilega það sem ýmsir hópar innan þinna ráða hafa hugsað sér?

„Nei, nei, við erum öll meðvituð um það að svigrúm er svigrúm og það eru auðvitað hópar innan okkar raða hjá BHM sem hafa verið að krefjast hærri launahækkana og svo er það þannig að við þurfum auðvitað að skoða það fyrst og fremst út frá því hver sé kaupmáttur í landinu, hvort að verðbólga étur upp kauphækkanir eða ekki. Og þar skiptir auðvitað mjög miklu máli að hagstjórnin sé með þeim hætti að þetta spili allt saman og að það verði ekki þær afleiðingar svona sem svolítið er verið að mála upp að geti orðið,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Fyrstu kjarasamningar félaga í Bandalagi háskólamanna sem renna út eru samningar sem losna 31. mars. Kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum losna fyrr eða um áramótin.