Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonar að ráðherra stöðvi Hvalárvirkjun

02.07.2019 - 09:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, segir að fyrirtækinu Vesturverki, sem stendur að Hvalárvirkjun, hefði átt að vera kunnugt um ágreining um eignarhald á landsvæði í kringum virkjunina fyrirhuguðu. Hann segist vona að umhverfisráðherra finni leið til að stöðva framkvæmdina.

Landvernd hefur beitt sér gegn virkjunarframkvæmdum í Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum. Tryggvi Felixson rakti feril málsins í grófum dráttum á Morgunvaktinni á Rás 1.

Telur vinnubrögðin ófagleg

„Við þurfum raunverulega að fara aftur í rammaáætlun tvö," segir Tryggvi en þar var Hvalárvirkjun metin. „Rammaáætlun átti að byggja á faglegum vinnubrögðum og hún átti að byggja á því að gögn væru viðunandi svo hægt væri að meta það. Þegar skýrsla rammaáætlunar er grannskoðuð þá sést að allir fjórir faghópar gefa henni ekki góða einkunn. Hún fær til dæmis í hagkvæmni verstu einkunn. Í áhrif á samfélag og hagkerfi lélega einkunn. Faghópar eitt og tvö sem fjalla um náttúruna, þeir segja að gögnin séu svo léleg að þeir geti ekki metið það. Hún hefði átt að lenda í biðflokki en af einhverjum ástæðum - ekki faglegum - er hún sett í nýtingarflokk. Og þar með hefst þessi vegferð sem frá sjónarhóli Landverndar byggir á ófaglegum vinnubrögðum," segir Tryggvi.

Tryggvi segir að þannig hefjist ferlið á mistökum. Og þau skutu upp kollinum í mati á umhverfisáhrifum árum síðar. „Þar fær virkjunin falleinkunn á öllum sviðum. Í sjálfu sér héldu margir að hún væri fallin á prófinu, menn færu ekkert lengra. En það er nú þannig með mat á umhverfisáhrifum að þó verkefni falli á prófinu þá er samt haldið áfram. Kárahnjúkavirkjun eru dæmi um það."

Áttu að vita af ágreiningi

Tryggvi segir að síðustu vikur hafi varpað ljósi á hnökra í undirbúningi fyrir virkjunina. Þar vísar hann til kæru sem kom fram í síðustu viku frá landeigendum í Drangavík á Ströndum. Þeir kærðu nýveitt framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins til Vesturverks og héldu því fram að þeir væru réttmætir eigendur vatnsréttinda á virkjunarsvæðinu. Kæran virtist koma Vesturverki í opna skjöldu.

„Það ætti ekki að hafa gert það. Það eru ýmis gögn sem lögð hafa verið fram þar sem stendur að landamerki séu óljós. Í þessu sem lagt er fram núna þá er vísað í þinglýst skjöl frá 1890 sem virðast vera nokkuð traust, hafa verið unnin vel. Þetta kom reyndar ekki í ljós fyrr en mjög nýlega. Það er að segja það var orðrómur um þetta, en það fór enginn að rannsaka þetta fyrr en nýlega," segir Tryggvi og tekur fram að flestir hafi einfaldlega gert ráð fyrir því að fyrirtækið og sveitarfélagið hefðu kannað þetta vel áður en haldið var áfram með málið.

Vonar að ráðherra beiti sér

Tryggvi segist ekki vita með vissu hver afstaða Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfisráðherra, sé til Hvalárvirkjunar en bindur vonir við að hann beiti sér í málinu.

„Við höfum ákveðnar leikreglur í stjórnsýslu á Íslandi. Hann verður að fara að þeim. Við vonum að hann finni í þeim leikreglum leiðir til að stoppa þetta. Ég er næstum viss um það að hans fólk leiti að leiðum til að stoppa þessa ferð sem leiðir okkur í miklar ógöngur," segir Tryggvi.