Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vonar að hann sé almennilegur kommúnisti

Mynd: RÚV / RÚV
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, er liðtækur tangódansari. Hann er viðmælandi dagsins í vefþáttunum Hvað í fjandanum á ég að kjósa?

Þorvaldur er smiður að atvinnu en fæstir vita að hann stundar tangódans af kappi í frítíma sínum. Ingileif Friðriksdóttir, stjórnandi þáttanna, vann sömuleiðis til verðlauna í samkvæmisdönsum sem barn og unglingur svo þau Þorvaldur áttu ekki erfitt með að taka nokkur tangóspor um leið og þau ræddu stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar. 

Þorvaldur segist aðspurður vona að hann standi undir þeim titli að vera kommúnisti. Helsta markmið fylkingarinnar sé félagsvæðing fjármálakerfisins, í stað markaðsvæðingar. 

Þá segir Þorvaldur að háir vextir standi ungu fólki helst fyrir þrifum við það að ráða við að eignast eigið húsnæði. 

Þorvaldur er næstsíðasti fulltrúi flokkanna í Hvað í fjandanum á ég að kjósa? Á morgun, fimmtudag, verður viðmælandi þáttarins Þorsteinn Sæmundsson, oddviti Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. 

Hvað í fjandanum á ég að kjósa? eru vefþættir ætlaðir ungu fólki fyrir Alþingiskosningarnar. Í þeim leggur Ingileif af stað í þá vegferð að komast að því hvað hún ætlar að kjósa og mun að lokum taka endanlega ákvörðun á kjördag, næstkomandi laugardag. Hægt er að sjá alla þættina með því að smella á ramma þáttarins til hægri við þessa frétt.