Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonar að flugeldahópur skili í janúar

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir að það fjölgi í hópi þeirra sem telji að grípa þurfi til aðgerða vegna mikillar mengunar af völdum flugelda.

Engar ákvarðanir um takmarkanir verði þó teknar fyrr en starfshópur sem hann skipaði ásamt heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra hefur skilað sínum niðurstöðum.

Hópurinn var skipaður árið 2018 og átti hann að skila af sér lokaskýrslu í febrúar í fyrra. Vinna hópsins hafi hins vegar reynst mun umfangsmeiri en lagt var upp með í upphafi en ráðherra vonast til að niðurstöður liggi fyrir í janúar.

„Ég held að það séu mjög skiptar skoðanir meðal almennings um hvort það eigi að takmarka flugeldanotkun. Það virðist þó vera að fleiri og fleiri hafi áhuga á að gera eitthvað í þessum málum einfaldlega vegna þess að þarna er um að ræða athafnir sem hafa í rauninni neikvæð áhrif á heilsu fólks og það er eitthvað sem við verðum að taka alvarlega," segir Guðmundur Ingi.