Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vonandi sagan endalausa segir Skúli

24.03.2019 - 20:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow Air, sendi starfsmönnum fyrirtækisins bréf í kvöld. Þar segist hann gera sér grein fyrir því að þetta sé farið að hljóma eins og saga án enda og vonandi verði hún það - og greinir svo frá viðræðum við skuldabréfaeigendur og aðra lánardrottna Wow Air. Hann segir að þeir vinni að því með stjórnendum Wow Air að tryggja að starfsemi flugfélagsins haldi áfram.

Hann segist ekki geta greint nánar frá viðræðunum en þakkar fyrir skilaboð sem hann hafi fengið frá starfsfólki síðustu daga. Hann segir að margir hafi boðist til að leggja hluta launa sinna fram upp í hlutabréf og að vonandi verði hægt að bjóða starfsfólki upp á það.

Wow Air sendi í kvöld út yfirlýsingu um að fyrirtækið og meirihluti skuldabréfaeigenda og annarra lánardrottna væri langt kominn í viðræðum um framhaldið. Markmiðið væri að breyta skuldum félagsins í hlutabréf svo hægt væri tryggja áframhaldandi starfsemi. Stefnt er að því að kynna niðurstöður þeirra viðræðna á morgun.