„Vona að hann truflist ekki við að sjá fána“

04.09.2019 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Vegfarendur hafa veitt því athygli í dag að regnbogafánum hefur verið flaggað nálægt Höfða, meðal annars fyrir utan höfuðstöðvar Advania. Þær eru sem kunnugt er gegnt Höfða þar sem Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, á fund og situr málþing síðar í dag.

Fram hefur komið að Pence hefur á sínum stjórnmálaferli unnið gegn réttindum hinsegin fólks. Pence sagði til að mynda í kosningabaráttu sinni árið 2000 að Bandaríkjaþing ætti að koma í veg fyrir að samkynhneigt fólk yrði skilgreint sem minnihlutahópur og þannig verndað við mismunun á sama hátt og konur og þjóðernisminnihlutahópar.

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, sagði í samtali við fréttastofu að það að flagga regnbogafánum sé þó ekki beint gegn varaforsetanum hinum megin við götuna.

„Það er ekki endilega með þá heimsókn að gera heldur en eitthvað annað. Ég vona að hann truflist ekki við það að sjá einhverja fána blakta við hún. Við styðjum réttindabaráttu samkynhneigðra, allra sem eru í réttindabaráttu og mannréttindi almennt. Og ekki bara á tyllidögum,“ segir Ægir Már.

Hann segir vera nokkra spennu í húsinu hjá Advania, enda útsýnið gott yfir Höfða þar sem viðbúnaður er gríðarlega mikill.

„Það má alveg segja það. Maður var ekki alveg viss um hvort hægt væri að komast í vinnu í morgun. Það gekk sem betur fer upp. En það er smá spenna í húsinu, það er ekki hægt að neita því,“ segir Ægir Már.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi