Von á aðgerðaáætlun vegna afleiðinga loftslagsbreytinga

31.12.2019 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: Arctic Circle
Forsætisráðherra segir von á skýrslu þar sem fjallað verður um ýmsar afleiðingar loftslagsbreytinga, en ríkislögreglustjóri telur auknar líkur á að flóttamannastraumur hingað aukist vegna loftslagsbreytinga. Hugmyndafræðileg átök vegna umhverfisverndar geti blossað upp. Umhverfisráðherra segir það miður því vandinn sé alls mannkyns sem þurfi að standa saman.

Þetta kemur fram í skýrslu ríkislögreglustjóra um umhverfi löggæslu á Íslandi. Þar er auk fleiri þátta, fjallað um hlýnun jarðar og loftslagsbreytingar, sem auki enn á hættu á óstöðugleika og átökum, einkum í þróunarríkjum. Það stuðli að miklum fólksflutningum, sem líkur séu á að muni auka álag á landamærum Íslands. Umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi kunni að fjölga og þrýstingur aukast um að Íslendingar taki við fleiri flóttamönnum fyrir milligöngu alþjóðastofnana. Þessu muni fylgja aukinn kostnaður og álag á löggæslu og aðra innviði. Greiningardeildin telur að loftslagsbreytingar muni einkum hafa óbein og félagsleg áhrif hér á landi næstu fimm árin. Almennt skorti á í íslenskri umfjöllun um loftslagsbreytingar, að hugað sé að líklegum afleiðingum á þjóðlífið, en greiningardeildin telur líkur á að loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim muni á næstu árum skapa djúpstæðar pólitískar deilur víða á Vesturlöndum og trúlega einnig hér á landi. Hugmyndafræðileg átök tengd umhverfisvernd kunni að blossa upp á Vesturlöndum með litlum fyrirvara. Forsætisráðherra segir stjórnvöld farin að huga að ýmsum afleiðingum. 

„Það kemur ný uppfærð aðgerðaáætlun eftir áramót og þar verður líka tekið tilliti til þess sem við getum kalað viðnámsþróttur samfélagsins gagnvart þeim breytingum sem munu verða, en ekki bara aðgerða til að sporna gegn breytingum. Þannig að já, við erum að sjálfsögðu farin að huga að því,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir alþjóða Rauða krossinn hafa bent á þetta lengi og þetta þurfi að skoða og hann fagnar að lögreglan taki þetta upp.

„Fólk er að skiptast meira í fylkingar þegar kemur að þessum málum og það er eitthvað sem ég tel vera neikvæða þróun vegna þess að loftslagsmálin og þær áskoranir sem að þar eru framundan eru sameiginlegt verkefni alls mannkyns og við þurfum að standa saman í því,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi