Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Von 900-9904

01.02.2014 - 10:01
Mynd með færslu
 Mynd:

Gissur Páll Gissurarson – flytjandi

Gissur Páll er tenór og býr á Ítalíu. Hann var í skólakór Kársness á sínum tíma og fór með titilhlutverk Olivers Twist í uppsetningu Þjóðleikhússins árið 1989, aðeins 12 ára gamall. Gissur Páll nam söng við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Magnúsar Jónssonar og síðan við Conservatorio di Bologna á Ítalíu 2001-2005 en hefur einnig stótt einkatíma hjá Kristjáni Jóhannssyni. Haustið 2006 hélt hann sína fyrstu einsöngstónleika á Íslandi við góðar undirtektir en það ár tók hann einnig þátt í söngkeppni í Brescia og hreppti þar tvenn verðlaun. Síðan þá hefur Gissur Páll sungið fjölbreyttar óperuuppfærslur, meðal annars við Teattor Vittoriale við Gardavatn, Staatstheater Heidelberg í Þýskalandi og Teatro Verdi Sassari á Ítalíu. Á Íslandi hefur hann meðal annars farið með hlutverk Nemorino í Ástardrykknum, sungið á aðventutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og opnað tónleikaröðina Tíbrá í Salnum, en Gissur Páll var jafnframt andlit Salarins fyrir þá tónleikaröð. Árið 2010 gaf hann út sína fyrstu sólóplötu en hún ber nafnið Ideale og inniheldur bæði ítölsk lög og íslensk.

Gissur Páll segir lagið Von fjalla um von og ást, og bætir því við að vonin geti fært fjöll og gefið mannfólkinu vængi.

 

Jóhann Helgason – höfundur lags og texta

Jóhann er 64 ára og fimm barna faðir. Hann er fæddur og uppalinn í Keflavík og vann meðal annars ýmis störf á Keflavíkurflugvelli á unga aldri. Í yfir fjörutíu ár hefur Jóhann eingöngu starfað við tónlist. Eiginkona hans er Guðrún Einarsdóttur myndlistarmaður, og hafa þau hjónin búið á Seltjarnarnesi frá 1981.

Á ferlinum hafa Jóhanni hlotnast yfir tuttugu gull- og platínumplötur en auk eftirtektarverðs sólóferils hefur hann starfað með mörgum vinsælustu tónlistarmönnum landsins. Jóhann var fyrsti íslenski tónlistarmaðurinn sem boðinn var höfundarréttarsamningur erlendis en tónlist hans hefur komið út víðs vegar um heiminn. Til dæmis má nefna að hinn sívinsæli dúett Jóhanns og Helgu Möller, Þú og ég, seldi yfir 100.000 eintök í af hljómplötu sinni sem kom út Japan á sínum tíma. Fjölmörg laga Jóhanns hafa notið geysilegra vinsælda meðal landsmanna og setið í efstu sætum vinsældarlistanna en þar á meðal eru lögin SöknuðurSail on og Í Reykjavíkurborg, sem hafa fyrir löngu fest rætur í íslensku þjóðarsálinni. Fyrir utan tónlistina eru helstu áhugamál Jóhanns klassískir bílar og bóklestur.

Lag Jóhanns í Söngvakeppninni 2014 er óður til vonarinnar.

 

Von

Við þekkjum flestöll fagran fugl 
sem flögrar um og geymir gull 
hann myrkri getur breytt í ljós
til hjálpar hverjum hal og drós

Og ljós það lýsir langan veg 
um lönd og álfur víða fer 
og sannað hefur þúsundfalt 
að andans seigla sigrar allt

Von lifir í hjarta mínu

von færir mér þrótt að nýju 
von allt sem ég áður þráði 
von leið mína stjörnum stráði

Von vegur um veröld bjarta 
von sigraði myrkrið svarta

von umvefur allt sem ann ég 
von ljósið sem forðum fann ég

Vorið kemur landið grær 
tárin þerrar frá í gær
og roða ljær á föla kinn 
sólin sem þú hleypir inn

Og ljósið lýsir langan veg 
um lönd og álfur víða fer 
og sannað hefur þúsundfalt 
að andans seigla sigrar allt

Von lifir í hjarta mínu ...

Um aldir og ár

þitt líf í hendi þér

þú hefur þar lög og ráð 
allt sem þú ert

af þínum völdum er

þú skapar þín bros og tár

Von lifir í hjarta mínu ...

Von vegur um veröld bjarta 
von sigraði myrkrið svarta
von umvefur allt sem ann ég 
von ljósið sem forðum fann ég

Von lifir í hjarta mínu ...