Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vitni yfirheyrð í Lúxemborg

19.04.2012 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Tíu manna hópur á vegum sérstaks saksóknara og lögregluyfirvalda í Lúxemborg hefur í dag yfirheyrt vitni ytra í tengslum við rannsókn á gamla Landsbankanum. Yfirheyrslum verður haldið áfram á morgun.

Um er að ræða innan við tíu vitni, sem búsett eru í Lúxemborg og eru ekki íslenskir ríkisborgarar, segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

Til rannsóknar eru umfangsmikil mál sem snúa að meintri markaðsmisnotkun og umboðssvikum. Embætti sérstaks saksóknara óskaði eftir því í fyrrasumar við lögregluyfirvöld í Lúxemborg að farið yrði í húsleitirnar og yfirheyrslurnar.

Um er að ræða rannsókn á alls níu málum, meðal annars meint markaðsmisnotkun Landsbanka Íslands með hlutabréf útgefin af bankanum. Þá varða nokkur málanna kaup á hlutabréfum í bankanum en grunur leikur á að viðskiptunum hafi verið ætlað á láta líta svo út sem verðmæti bankans væri meira en raun bar vitni.