Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vítahringur hjúkrunarheimilanna

07.02.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson
Hjúkrunarheimilin senda veika íbúa sína í auknum mæli á spítala af því að ekki er nóg af fagfólki til annast þá á heimilunum. Sumir þeirra eru svo veikir að þeir eiga ekki afturkvæmt. Stjórnendur hjúkrunarheimilanna meta nú hvenær álag á heimilunum stofnar íbúum í hættu og hvenær þurfi að senda þá á brott.

Umræðan um hjúkrunarheimilin hér á landi hefur lengi snúist um það að ekki sé hægt að útskrifa fólk af Landspítalanum vegna skorts á hjúkrunarheimilum. Núna hefur hún snúist við því þeir sem reka hjúkrunarheimilin velta fyrir sér hvenær senda eigi veika íbúa á spítala. Þeim tilfellum hefur fjölgað.

Óánægja með nýjan rammasamning

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sjúkratryggingar Íslands skrifuðu undir nýjan rammasamning í desember. Samningurinn nær til 40 hjúkrunarheimila og er mjög svipaður eldri samningi. Mikil óánægja er með hann á hjúkrunarheimilunum. María Fjóla Harðardóttir er framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna:

„Inni í samningnum er t.d. ekki viðmið landlæknis um mönnun á hjúkrunarheimilum. Þannig að það er ekki verið að greiða eftir þeirri mönnun sem talið er að þurfi inn á hjúkrunarheimilin.“  
 

Landlæknir hefur gefið út viðmið um gæði þjónustu á hjúkrunarheimilum sem eru vísbendingar um hvernig meðferð og umönnun á að vera.

„Í dag erum við að veita faktískt mun meiri þjónustu en við teljum okkur geta og hafa getu til. Þannig að við erum í raun og veru [.....] að meta hvaða þjónustu við getum veitt til að tryggja öryggi okkar skjólstæðinga og að ábyrgð fagfólks sé ekki umfram getu.“
 

Mynd: María Fjóla Harðardóttir / María Fjóla Harðardóttir
María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna

Íbúar hjúkrunarheimila mun veikari en áður

Íbúar á hjúkrunarheimilum nú eru mun veikari en þeir voru áður. Það sýna niðurstöður rannsóknar sem Ingibjörg Hjaltadóttir hjúkrunarfræðingur gerði ásamt fleirum og sagt var frá í Læknablaðinu í ágúst í fyrra. Þar kemur fram að eftir að vistunarmati heimilanna var breytt árið 2008 eru þeir sem flytja á hjúkrunarheimilin eldri og veikari en þeir voru fyrir 2008. Veikari íbúar kalli á meiri umönnun. 

María Fjóla segir að þrátt fyrir breytt vistunarmat hafi fjármagn ekki fylgt auknum kröfum til heimilanna og þau hafi þar af leiðandi ekki getað mannað faglega hluta starfseminnar á fullnægjandi hátt. Mikil ábyrgð hvíli nú á hjúkrunarheimilunum að tryggja öryggi starfseminnar.

Íbúar hjúkrunarheimila sendir á sjúkrahús  

„Þess vegna hefur þetta leitt til þess að við erum að [.....] senda í auknum tilfellum á sjúkrahús þegar einstaklingar eru óstöðugir eða þurfa aukna hjúkrun. Við höfum ekki möguleika á gjörgæsluhjúkrun [.....] Þá verðum við því miður að senda þá frá okkur á sjúkrahús en tökum auðvitað til baka þegar þeir hressast.“  

Komið hefur fyrir að íbúar sem eru með alvarlegar heðgunarraskanir vegna heilabilunar hafi verið útskrifaðir af hjúkrunarheimilinu og fluttir á sjúkrahús. Þeir snúa ekki til baka.

„Við höfum verið að óska eftir að heilbrigðiskerfið skoði úrræði fyrir einstaklinga sem geta, vegna þjónustustigs hjúkrunarheimila, ekki verið inni á hjúkrunarheimili. Hvert fer þetta fólk sem þið eruð að útskrifa? Það fer á Landspítalann vegna þess að það eru engin önnur úrræði nema Landspítali og hjúkrunarheimili.“ Þannig að Landspítalinn útskrifar til ykkar og þið útskrifið til þeirra, þetta er einhver skonar vítahringur? „Þetta er vítahringur.“
 
 

Mynd með færslu
Hrafnista. Mynd úr safni. Mynd: Rúv

Nú segjum við stopp

Ekki eru til tölur yfir þá sem sendir eru á Landspítalann vegna veikinda. Ekki eru heldur til tölur yfir hve margir hafa verið útskrifaðir af hjúkrunarheimilum og lagðir inn á Landspítalann. María Fjóla segir að á Hrafnistuheimilunum séu tilfellin ef til vill tvö til þrjú á tíu árum. 

„En við erum að sjá að þetta muni jafnvel aukast og það er það sem við höfum áhyggjur af.“
 

Úrræði vanti fyrir einstaklinga og meira fjármagn til hjúkrunarheimila svo þau geti staðið undir þeirri ábyrgð sem fylgir veikari íbúum.

Hefur þetta ekki allt heyrst áður? „Þetta er endurtekið efni. Mörkin okkar kannski þau að nú segjum við stopp.“

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Ósátt við mörg atriði í rammasamningi

Eldri rammasamningur milli Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sjúkratrygginga rann út í lok árs 2018. Samtökin voru ósátt við mörg atriði í eldri samningnum og bentu á 14 atriði sem þau vildu breyta eða ræða, segir Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

„Og í rauninni var því hafnað og stóð bara til boða  óbreyttur samningur þannig að þær viðræður runnu út í sandinn.“

Viðræður stóðu yfir með hléum frá því eldri samningurinn rann út í lok árs 2018 og þangað til í desember þegar skrifað var undir.

Á fjárlögum árið 2019 var búið að veita 276 milljónum til hjúkrunarheimilanna til að mæta kostnaði við aukna hjúkrunarþyngd. Sjúkratryggingar töldu ekki hægt að greiða þær nema gerður yrði nýr samningur.

„Og við vorum í raun og veru komin út í horn þarna í lok árs, sáum fram á að þessar 276 milljónir myndu bara detta niður og ekki renna til hjúkrunarheimilanna og ekki koma inn í þeirra rekstrargrunn.“ 
 

Mynd með færslu
 Mynd:

Verulegir annmarkar á núverandi fyrirkomulagi

„Við höfum gagnrýnt mjög þetta ferli samningagerðar við ríkið í gegnum Sjúkratryggingar Íslands.“
 

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Læknafélag Reykjavíkur, Félag sjúkraþjálfa, Tannlæknafélag Íslands og Samtök heilbrigðisfyrirtækja fengu KPMG í fyrra til að gera úttekt á starfsumhverfi þeirra fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sem gera þjónustusamninga við Sjúkratryggingar Íslands.

KPMG birti niðurstöður sínar í nóvember og benti á fjölmarga annmarka sem eru á núverandi fyrirkomulagi samninga.

Úr skýrslu KPMG:
Vinnubrögð og fyrirkomulag innkaupa óskýrt, starfsumhverfi ótryggt, óskýrt hlutverk aðila og ábyrgð, fagþekking SÍ til að annast greiningar, gerð og eftirlit samninga ekki nægjanleg, aðstöðumunur samningsaðila mikill, skortur á greiningum og kostnaðarmati.  

Niðurstöður KPMG eru samhljóða niðurstöðum Ríkisendurskoðunar sem birtar voru í skýrslu sem heitir Sjúkratryggingar Íslands sem kaupandi heilbrigðisþjónustu og  kom út í febrúar 2018.  

Úr skýrslu Ríkisendurskoðunar:
„Að mati Ríkisendurskoðunar eru annmarkar á starfsumhverfi, starfsemi og starfsháttum Sjúkratrygginga Íslands þegar horft er að gerð, framkvæmd og eftirliti með nokkrum kostnaðarsömustu samningum stofnunarinnar um heilbrigðisþjónustu.“ 

„Kaup og samningar stofnunarinnar hafa að miklu leyti ráðist af áherslum fjárlaga, tímabundnum átaksverkefnum og úrlausn tilfallandi vandamála hverju sinni.“

„Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að efla getu Sjúkratrygginga Íslands til að semja um kaup á heilbrigðisþjónustu á markvissan hátt.“ 
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hversu langt á að ganga?

Eybjörg segir að umræðan innan hjúkrunarheimilanna og heilbrigðiskerfisins hafi verið mjög þung í vetur. Rætt sé um hve hratt fólk eigi að geta hlaupið og hve langt sé hægt að ganga án þess að stofna öryggi sjúklinga í hættu.

„Ég veit til þess að hjúkrunarheimilin eru að skoða og yfirfara á hvaða tímapunkti það sé nauðsynlegt út frá þeirri fagmönnun sem fjárveiting ríkisins býður upp á í dag að íbúar heimilisins þurfi þá að leggjast á sjúkrahús vegna veikinda sinna.“ 

Mönnun hjúkrunarheimila sé langt undir þeim viðmiðum sem embætti landlæknis leggur upp með. 

„Og þessi viðmið eru meira að segja komin nokkuð til ára sinna. Og sjúklingahópurinn er orðinn ennþá þyngri en þegar þessi viðmið voru hugsuð og sett.“
 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Alþingi ákveður hvaða fjármagn fer í þjónustuna

Sagt er frá undirritun samnings um þjónustu hjúkrunarheimila í frétt á vef Sjúkratrygginga Íslands sem birt var 23. janúar 2020.  Þar segir:  

„Iðulega kemur upp umræða um að fjárveitingar Alþingis til heilbrigðisþjónustu almennt og til einstakra flokka hennar séu ekki nægilegar, m.a. vegna þess að þarfir fyrir þjónustu fari sívaxandi. Gildir það bæði um opinberar stofnanir og aðra aðila sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningum við SÍ. Mikilvægur hluti samningaviðræðna SÍ við viðsemjendur sína er því að finna leiðir til að veita sem mesta og besta þjónustu fyrir það fjámagn sem Alþingi hefur ákveðið að veita til hennar.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV