Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vita ekki hversu oft er lent á varaflugvelli

17.02.2020 - 20:03
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Ekki eru til upplýsingar um það hversu oft flugvélar í millilandaflugi hafa þurft að lenda á varaflugvelli í stað áfangastaðar. Isavia fær flugáætlun allra flugvéla sem leggja af stað til Íslands. Þar koma meðal annars fram upplýsingar um flugleið, gerð flugvélar og varaflugvöll. Isavia fær svo afboðanir þegar það á við en þar kemur ekki annað fram en að fallið hafi verið frá lendingu á tilgreindum lendingarstað.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan þingflokka.

Andrés Ingi spurði líka hversu oft blindaðflug hefur verið heimilað á Reykjavíkurflugvelli síðustu fimm ár. Í millilandaflugi hafa verið leyfð um 1.400 til 1.600 blindaðflug til og frá Reykjavíkurflugvelli ár hvert, hvora leið, og 5.600 til 6.600 blindaðflug frá Reykjavíkurflugvelli í innanlandsflugi og álíka mörg blindflug frá honum ár hvert.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV