Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vita ekki hvaðan kjúklingurinn er upprunninn

05.07.2016 - 16:02
Hráar kjúklingabringur á diski með pasta og tómata í bakgrunni.
 Mynd: Stocksnap.io
Innflutningur á hráu kjöti hefur aukist verulega síðastliðin fimm ár, innflutningur á hráu nautakjöti nam rúmlega 400 tonnum árið 2011 en rúmlega þúsund tonnum árið 2015. Innflutningur á kjúklingakjöti hefur einnig aukist úr 500 tonnum árið 2011 í um 900 tonn, árið 2015. Minna er flutt inn af svínakjöti, tæplega 300 tonn árið 2011 en rúmlega 500 árið 2015. Þetta kemur fram í starfsskýrslu Matvælastofnunar fyrir árið 2015. Ekki liggur fyrir hvaðan stór hluti kjötsins er upprunninn.

Tvöfalt meira en fyrir fimm árum

Þegar á heildina er litið hefur innflutningur á hráu kjöti tæplega tvöfaldast á fimm árum. Mjög dró reyndar úr honum árið 2012, en síðan hefur hann verið í mikilli sókn. Enn er þó meirihluti þess kjöts sem selt er hér á landi innlent. Árið 2015 var þriðjungur nautakjötsins sem selt var innfluttur. Rúmlega 17% kjúklingsins var innfluttur og tæp 13% svínakjötsins. 

Neytendur eiga ekki rétt á upplýsingum

 Íslenskir neytendur eiga ekki rétt á upplýsingum um hvar kjúklingur sem fluttur er inn til landsins er alinn og það sama á við um svínakjöt. Öðru máli gegnir aftur á móti um innflutt nautakjöt og hunang, þær vörur eiga að vera merktar með upprunalandi. Sá galli er þó á gjöfum Njarðar að upprunaland getur átt við bæði landið sem varan er upprunnin í og landið þar sem hún er fullunnin, það er því ekkert gulltryggt í þessum efnum. Jónína Stefánsdóttir, matvælafræðingur hjá Matvælastofnun, segir að enn sem komið er eigi íslenskir neytendur ekki rétt á að fá upplýsingar um hvaðan kjúklingur og svínakjöt sem hingað er flutt er upprunnið, tilskipanir Evrópusambandsins þar að lútandi hafi ekki verið innleiddar hér.

Mest kemur frá Danmörku

Starfsfólk Matvælastofnunar fær aðeins meiri upplýsingar en hinn almenni neytandi, krafan er sú að það sé alltaf hægt að rekja feril vörunnar eitt skref aftur á bak og eitt áfram. Starfsfólk stofnunarinnar veit því að meirihluti hrás kjúklingakjöts sem flutt er til landsins kemur frá Danmörku en ekki hvort kjötið er þar upprunnið. Fulltrúi matvælastofnunar segir að upprunalandið gæti allt eins verið utan Evrópu. Hann geti ekki svarað því.

ESB kaupir mikið frá Taílandi

Í fyrra keypti Evrópusambandið 40% af þeim kjúklingi sem Taílendingar fluttu út en Evrópusambandið hefur leyft innflutning á frosnu kjúklingakjöti frá Taílandi frá árinu 2012. Kjúklingabú í Taílandi hafa sætt gagnrýni fyrir að brjóta á réttindum farandverkamanna frá Kambódíu og Mjanmar og mansalstilfelli hafa komið upp. Swedwatch, neytendasamtök í Svíþjóð, hafa gagnrýnt innflytjendur og heildsala þar í landi fyrir að hafa nær eingöngu lagt áherslu á að tryggja að kjötið sé laust við sýkingar og hæft til manneldis en huga ekki að því hvort mannréttindi verkafólks á búunum séu tryggð. Sömuleiðis gagnrýna þau stjórnvöld fyrir andvaraleysi. 

Bannað að flytja inn hrátt kjöt

Innflutningur á hráu kjöti til landsins er að vísu bannaður en Matvælastofnun er heimilt að veita leyfi fyrir innflutningi ef skilyrði um varnir gegn dýrasjúkdómum eru uppfylltar. Þá þurfa vörur sem fluttar eru inn frá ríkjum innan EES að hafa verið framleiddar í vinnslustöð sem Evrópusambandið hefur samþykkt og þær þurfa að hafa verið fyrstar í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu.

Umdeilt innflutningsbann

EFTA-dómstóllinn komst að vísu að þeirri niðurstöðu, nú í febrúar, að innflutningsbannið og frystikrafan brjóti í bága við EES-samninginn. Sú niðurstaða var ráðgefandi. Fyrirtækið Ferskar kjötvörur hefur höfðað mál á hendur íslenska ríkinu vegna bannsins og er úrskurðar héraðsdóms að vænta í október. Málið gæti endað fyrir EFTA-dómstólnum. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV