Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vísvitandi tilraunir til að rugla umræðuna

06.04.2016 - 07:59
Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson / RÚV
Stjórnarráðið sendi frá sér tilkynningu til erlendra fjölmiðla í gærkvöld þar sem fram kemur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hafi falið varaformanni flokksins að taka við forsætisráðuneytinu í ótilgreindan tíma. Hann hafi ekki sagt af sér og muni áfram vera formaður Framsóknarflokksins. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, segir þetta tilraunir til að rugla umræðuna, sérstaklega fyrir umheiminum.

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöld að Sigmundur Davíð hefði lagt það til að Sigurður Ingi Jóhannesson tæki við forsætisráðherraembættinu í ótilgreindan tíma - það geti þýtt fram að næstu kosningum.

Steingrímur sagði í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun að það væri ekkert beinlínis rangt í yfirlýsingunni. Sigmundur hafi ekki beðist lausnar en hann hefur tilkynnt að hann muni stíga til hliðar og það samþykkt í hans þingflokki. „Það sem að mér fannst stórfurðulegt við þetta bréf var að það var nánast ekki hægt að lesa í það annað en vísvitandi tilraunir til að rugla umræðuna og þá sérstaklega gagnvart umheiminum og þurftum við nú ekki á því að halda að birtast sem enn meiri viðundur í augum umheimsins. Með því að fara allt í einu að senda þessa tilkynningu út á eftir fréttum sem höfðu farið um alla heimsbyggðina að fyrsti stjórnmálamaðurinn hefðu þurft að segja af sér vegna Panamaskjalanna og erlendir fjölmiðlar urðu náttúrulega alveg gáttaðir, bíddu hvað er eiginlega í gangi á Íslandi.“