Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vistvænar byggingar

Mynd með færslu
 Mynd:

Vistvænar byggingar

30.09.2013 - 15:23
Vistvænar byggingar geta verið örlítið dýrari en aðrar í byggingu, en dæmið snýst við þegar kemur að rekstri bygginganna. Þar koma vistvænu byggingarnar mun betur út. Þetta er meðal þess sem kemur fram í pistli Stefáns Gíslasonar í dag.


Vistvænar byggingar

Enn virðast margir halda að umhverfismál snúist fyrst og fremst um flokkun úrgangs og endurvinnslu. En allir hlutir eiga sér sögu – og þar er úrgangsstigið bara síðasta kaflinn, já eða eiginlega bara banalegan ef maður leyfir sér að bera ævisögu hlutar saman við ævisögu manns. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að umhverfismál snúast miklu frekar um hönnun en endurvinnslu. Þessu til staðfestingar má benda á að Breska hönnunarráðið hefur áætlað að 80% umhverfisáhrifa vöru ráðist á hönnunarstiginu. Á hönnunarstiginu eru nefnilega teknar ákvarðanir um það hversu mikið efni og hvernig efni er notað í vöruna – og efni hafa auðvitað mismikil áhrif á umhverfið. Þarna eru líka teknar ákvarðanir um samsetningu vörunnar, en samsetningin ræður mjög miklu um það hversu vel varan hentar til endurvinnslu síðar meir. Það er nefnilega erfitt að endurvinna vörur sem eru samsettar úr ólíkum efnum sem ekki er hægt að aðskilja með góðu móti. Þarna gildir það sama og í lífinu sjálfu, að lengi býr að fyrstu gerð!

 Það er vel við hæfi að leggja áherslu á mikilvægi hönnunar í umhverfislegu tilliti einmitt núna, því að á morgun er alþjóðadagur arkitektúrs. Arkitektar teikna vissulega fleira en byggingar, en það vill svo til að byggingageirinn er einmitt það svið þar sem vistvæn hönnun, þ.e.a.s. hönnun sem tekur tillit til umhverfisáhrifa, er komin hvað lengst á veg. Það er líka eins gott, því að byggingar eru gerðar til að endast. Ef bygging er illa hönnuð frá umhverfislegu sjónarmiði mun neikvæðra áhrifa þess gæta langt inn í framtíðina.

 Íslendingar eru tiltölulega nýbyrjaðir að velta fyrir sér umhverfisþáttum við hönnun bygginga. Reyndar fer það eftir því hvernig á það er litið, því að vissulega voru torfbæirnir afskaplega umhverfisvænir. Þeir samlöguðust jú jörðinni á ótrúlega stuttum tíma ef þeim var ekki haldið við. Sem dæmi um þetta má nefna að faðir minn ólst upp í torfbæ sem ekki sést tangur né tetur eftir af í dag, mér vitanlega. Hins vegar voru torfbæirnir ekki svona umhverfisvænir vegna þess að menn hefðu spáð svo mikið í kolefnisfótspor eða endurvinnslu byggingarefna þegar bæirnir voru hannaðir. Torfbæirnir voru eins og þeir voru, aðallega vegna þess að endingarbetri byggingarefni voru ekki tiltæk. Í dag eru ákvæði um vistvæna hönnun bygginga hins vegar komin inn í byggingarreglugerð. Þar stendur að við hönnun bygginga skuli „leitast við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif, velja vistvænar lausnir þar sem það er mögulegt og miða hönnunina við allan líftíma“ bygginganna. Jafnframt skal leitast við að lágmarka auðlindanotkun.

 Á Íslandi er starfandi sérstakt Vistbyggðarráð sem var stofnað í febrúar 2010. Í ráðinu sitja fulltrúar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga sem vinna saman að því að flétta umhverfisáherslur inn í skipulag, hönnun, byggingu, rekstur og viðhald mannvirkja og „stuðla þannig að því að þjóðin geti ávallt búið við heilbrigð og góð lífsskilyrði í vistvænni byggð“, eins og það er orðað á heimasíðu samtakanna. Stofnun og tilvist Vistbyggðaráðs endurspeglar aukinn áhuga og aukna vitund um mikilvægi þess að taka umhverfisáherslur með í reikninginn á þessu sviði sem öðrum. Sambærileg landssamtök eru starfandi víða erlendis, að ógleymdu alþjóðlega vistbyggðaráðinu (World Green Building Council), sem var stofnað árið 2002.

 Á síðustu árum hafa orðið til nokkur umhverfisvottunarkerfi fyrir byggingar. Þessi kerfi gera í raun og veru tvöfalt gagn, því að annars vegar nýtast þau sem leiðarvísir fyrir hönnuði og framkvæmdaaðila og hins vegar upplýsa þau aðra um umhverfislegt ágæti viðkomandi byggingar, sem annars gæti verið býsna erfitt að átta sig á. Meðal þekktustu vottunarkerfanna af þessu tagi eru breska kerfið BREEAM, sem fyrst leit dagsins ljós árið 1990, bandaríska kerfið LEED sem var hleypt af stokkunum 8 árum síðar, þýska kerfið DGNB og sænska kerfið Miljöbyggnad, svo eitthvað sé nefnt, að ógleymdum Norræna svaninum sem hefur vottað vistvænar byggingar frá því á árinu 2005.

 Áherslur og kröfur umhverfisvottunarkerfanna eru svolítið mismunandi og þau eru misítarleg. En grundvallaratriðin eru í raun alltaf svipuð. Til þess að tiltekin bygging geti fengið umhverfisvottun þarf hún að standast kröfur um ýmis atriði, allt frá hráefnum til fullbúinnar byggingar. Hráefnin verða til dæmis að vera laus við tiltekin hættuleg efni, þar á meðal ýmsa ofnæmisvalda, úrgangur sem fellur til við framkvæmdina verður að fá rétta meðhöndlun, húsið verður að vera vel loftræst, bjart og nýta orku sem best, auk þess sem gæðaeftirlit verður að vera með þeim hætti að ekki sé hætta á rakaskemmdum. Hvað orkunýtinguna varðar er lögð sérstök áhersla á upphitunina, en einnig eru gerðar kröfur til lýsingar og raftækja sem teljast hluti af byggingunni. Og svo mætti lengi telja.

 Nú er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort það sé ekki miklu dýrara að byggja vistvæn hús en önnur hús. Þessari spurningu er svarað í skýrslu um hagræn áhrif vistvænna bygginga sem alþjóðlega vistbyggðaráðið gaf út í mars á þessu ári. Þar kemur fram að hönnunar- og framkvæmdakostnaður vegna vistvænna bygginga sé ekkert endilega hærri en annarra bygginga, sérstaklega ekki ef umhverfisáherslurnar eru markvisst teknar inn í hönnunarferlið frá upphafi. Í öllu falli sé kostnaðarmunurinn minni en menn í byggingariðnaðinum virðast gera sér grein fyrir. Í skýrslunni kemur líka fram að vistvænar byggingar séu seljanlegri en aðrar, söluverð sé hærra og betur gangi að leigja þær út. Þessi munur komi skýrar fram eftir því sem umhverfisvitund fjárfesta og almennings aukist. Menn eru jafnvel farnir að tala um „brúna afslætti“, eða með öðrum orðum að verð á síður vistvænum byggingum sé lækkað til þess að þær seljist.

 Vistvænar byggingar geta eins og áður sagði verið örlítið dýrari en aðrar í byggingu, en dæmið snýst við þegar kemur að rekstri bygginganna. Þar koma vistvænu byggingarnar mun betur út, meðal annars vegna lægri orkukostnaðar, en líka vegna minna viðhalds til lengri tíma litið. Orkusparnaðurinn einn og sér er venjulega fljótur að borga upp hærri stofnkostnað þar sem um slíkt er að ræða.

 Þetta með orkusparnaðinn á kannski ekkert sérstaklega vel við um Ísland, nema þá á köldum svæðum. En vistvænar byggingar hafa enn einn kost sem er alveg óháður orkuverði. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt að vistvæn hönnun bygginga er til þess fallin að auka afköst, bæta heilsu og auka vellíðan þeirra sem þar hafast við. Þessi atriði geta verið fljót að vega á móti örlítið hærri byggingarkostnaði. Þessi atriði minna okkur líka enn og aftur á það hversu mikinn þátt arkitektar eiga í því að skapa okkur góð lífsskilyrði.