Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vissi ekki að Gunnar og Bergþór kæmu í dag

24.01.2019 - 14:42
Mynd:  / 
„Ég er ekki sátt við þessa framkomu og það voru mín skilaboð,“ segir Lilja Alfreðsdóttir um samskipti sín við Gunnar Braga Sveinsson í samtali við fréttastofu RÚV. Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, tilkynntu í morgun að þeir hygðust snúa aftur á þing. Þeir viku sæti um tíma eftir að upptökur frá Klaustri voru birtar á vef DV og Stundarinnar.

Lilja segir að það sé mikilvægt að störf þingsins haldi áfram, enda sé verið að vinna að miklum framfaramálum í þinginu. „Það var mjög gaman að ræða um þetta frumvarp sem ég var að mæla fyrir um að efla íslenskt vísindastarf,“ sagði Lilja.

Mynd:  / 
Athygli vakti þegar Lilja gekk tvisvar að Gunnari Braga á þingfundi og fór svo úr þingsalnum.

Lilja segist fyrst hafa áttað sig á því að þeir Gunnar Bragi og Bergþór væru komnir til baka þegar hún sá þá úr sætinu sínu í þingsal. „Ég las greinina hans Bergþórs en ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að þeir væru að koma í dag, svo ég svari því.“ Lilja segir mikilvægt að fólk standi með sjálfu sér í þessu máli. „Ég segi bara enn og aftur að þeir eiga ekki að hafa dagskrárvaldið í þessu samfélagi.“