Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vísindamaður og bókaormur

Mynd: Ævar Þór Benediktsson / RÚV

Vísindamaður og bókaormur

16.11.2016 - 16:24

Höfundar

Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og sjónvarpsmaður, hlaut í dag sérstaka viðurkenningu fyrir störf sín í þágu íslensks máls. Ævar hefur skrifað fjölda barnabóka og gert sjónvarpsþætti í hlutverki Ævars vísindamanns, svo fátt eitt sé nefnt.

Þá hefur hann tvö síðustu ár staðið fyrir lestrarátaki barna í 1.-7. bekk grunnskóla í samstarfi við  Ibby, Heimili og skóla, Sorpu, Odda, Reykjavík – Bókmenntaborg, RÚV, 123skoli.is, Forlagið, Landsbankann og mennta- og menningarmálaráðuneytið. 

Ævar sagði í samtali við Víðsjá í dag að lestrarátakið væri, líkt og persónan Ævar vísindamaður, orðið miklu stærra en til stóð í upphafi. „Ég byrjaði með vísindamanninn á Rás 1 og það átti bara að vera í hálfan vetur. Svo var okkur boðið í heimsókn í Stundina okkar og þá þurfti ég allt í einu að finna búning og var ekki frumlegri en svo að ég bara notaði gömlu gleraugun mín, fötin mín og nafnið mitt,“ segir Ævar. „Sem gamall bókaormur og lestrarhestur fannst mér það skipta máli að krakkar væru að lesa,“ segir Ævar og þannig hafi lestrarátakið komið til. Honum hafi þótt upplagt að nota þessa persónu, Ævar vísindamann, í góðum tilgangi. Að gera eitthvað sem máli skipti. 

Spurður að því hvort hann hafi áhyggjur af stöðu íslenskunnar segir Ævar að vissulega verði að vernda tungumálið og þá m.a. með því að skrifa bækur á íslensku og kynna fyrir börnum þannig að þau venjist því að lesa á íslensku og þyki bækur á íslensku spennandi.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni með því að smella á tengilinn.